fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

„Með hverju ári eru fleiri hlerar negldir þar fyrir glugga“

Egill Helgason
Föstudaginn 28. apríl 2017 19:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í svonefndri Jóladagbók barnanna í Morgunblaðinu á sjálfan aðfangadag 1972 birtist þessi ljósmynd. Eins og sjá má var hún eftir tólf ára dreng, Torfa Hjaltason. Blaðið hafði haldið ljósmyndasamkeppni meðal barna og birti afraksturinn á þessum tíma. Þarna var ekki um það að ræða að taka myndir og hlaða inn í tölvu eða áframsenda beint, nei þær varð að framkalla á pappír. Í mörgum skólum störfuðu ljósmyndaklúbbar þar sem börn fengu aðgang að framköllunargræjum og myrkraherbergjum. Ég dáðist alltaf að börnum sem stóðu í þessu – einn bekkjarfélagi minn, Skúli Gautason, var ötull ljósmyndari og tók fínar myndir af okkur krökkunum. Annars var ekkert sérlega mikið verið að mynda mann í þá daga. Ég man eftir sirka fimm ljósmyndum af sjálfum mér á árunum frá 12-16 ára, það eru aðallega skólamyndir eða myndir sem voru teknar kringum íþróttamót.

En aftur að myndinni hér að neðan. Þetta er býsna glúrið sjónarhorn hjá hinum unga ljósmyndara. Það er ekkert sérstaklega verið að fegra borgina sem þarna birtist, þetta er býsna napurt raunsæi. Myndin er tekin í Grjótaþorpinu, í Fischersundi, það er dumbungsveður og niðurníðslan leynir sér ekki. Við sjáum hús sem nefnist Hákot – það var síðar gert fallega upp. Dökkmálaða húsið sem er til hægri í myndinni er var rifið.

Þetta var á árunum þegar enn voru horfur á að mestallt Grjótaþorpið yrði rifið, samkvæmt þágildandi aðalskipulagi sem lagði mesta áherslu á greiða bílaumferð gegnum bæinn. Frá þeim var horfið að endingu, og byggðin í Grjótaþorpinu öðlaðist nýja lífdaga. En á þessum tíma var hún skelfing illa farin. Ég var barnaskóla í Öldugötuskólanum svokölluðum, hann var í húsi gamla Stýrimannaskólans við Öldugötu. Hann sóttu börn sem bjuggu í Vesturbæ, norðan Hringbrautar. Þetta var dásamlega góður skóli.

Hann sóttu líka börn neðan úr Grjótaþorpi og það verður að segjast eins og er að þar þótti alls ekki fínt að búa. Það var ekki „gott hverfi“. Götur voru mjög illa farnar eins og sjá má, sums staðar voru ennþá malargötur- og plön. Björn Th. Björnsson skrifaði um Grjótaþorpið 1969:

Allt þetta þorp er í undarlegri kyrrstöðu. Það er eins og nýja tímanum hafi stirðnað höndin við að sópa því burt, en óvissan lagt á það sjálft sína dauðu hönd. Með hverju ári eru fleiri hlerar negldir þar fyrir glugga.

En það tók að breytast á þessu tímabili. Ungt fólk uppgötvaði sjarmann við Grjótaþorpið, settist að í húsunum þar og tók að gera það upp. Í þeim hópi voru líka útlendingar eins og Gérard Lemarquis sem síðar eignaðist Hildibrandshús sem er efst þarna í götunni, gegnt Hákoti, en sést ekki á myndinni. Frægt var þegar Gérard tók sér stöðu með barn í fangi framan við jarðýtu þegar átti að rífa eitt húsið í Grjótaþorpinu.

Kees Visser, hollenskur myndlistarmaður sem kom hingað fyrst á þessum tíma, talaði eitt sinn við mig um ljóðrænuna sem hann hefði upplifað í niðurníddu timburhúsabyggðinni í Reykjavík. Kannski var hún þar, hún er þá samofin æsku minni, en víst er að þau hús sem fengu að standa líta mun betur út nú en þá.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ykkar hagsmunir, ekki bara þeirra

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir skrifar: Ykkar hagsmunir, ekki bara þeirra
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sauð rækilega upp úr á hitafundi í Ölfusi – „Þú ert bara galin manneskja og þú skalt bara haga þér“

Sauð rækilega upp úr á hitafundi í Ölfusi – „Þú ert bara galin manneskja og þú skalt bara haga þér“