fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Skoðanakannanir stóðust í Frakklandi – Macron sigrar að líkindum en fylgi Le Pen er ógnvekjandi

Egill Helgason
Mánudaginn 24. apríl 2017 11:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ýmislegt athyglisvert við fyrri umferð frönsku forsetakosninganna sem fór fram í gær. Undanfarið hefur verið mikil umræða um að ekkert sé að marka skoðanakannanir lengur, þessi tilfinning ágerðist eftir Brexit og sigur Trumps í Bandaríkjunum (þar sem hann vann þótt hann fengi fjórum milljónum færri atkvæði en andstæðingurinn, Clinton fékk tveimur prósentustigum meira en hann).

En frönsku kosningarnar staðfesta engan veginn þessa þróun. Skoðanakannanir stóðust nánast upp á punkt. Eins og sjá má á þessari vefsíðu er eiginlega makalaust hvað þær eru nákvæmar.

Og ef marka má skoðanakannanirnar vinnur Emmanuel Macron næsta auðveldan sigur á Marine Le Pen í seinni umferðinni. Munurinn er yfirleitt á bilinu frá 60-65 fyrir Macron, 35-39 fyrir Le Pen. Það er harla ólíklegt að verði stórar breytingar þarna á. En hins vegar er sannkallað áhyggjuefni fyrir Frakka og Evrópu að öfgaflokkur hjóti svo mikið fylgi líkt og raunin er með Le Pen og Þjóðfylkinguna.

Það hefur einu sinni áður gerst að fulltrúi Þjóðfylkingarinnar komist í seinni umferð forsetakosninganna, þetta var 2002. Þá var á ferðinni Jean Marie Le Pen, faðir Marine. Hann mætti hægrimanninum Jacques Chirac sem þá var heldur óvinsæll forseti. Þá reis mikil hreyfing til að tryggja kjör Chiracs, meira að segja vinstrið greiddi honum atkvæði í stórum stíl. Chirac fékk 82 prósent en Le Pen aðeins 18. Fylgi dótturinnar verður miklu meira að þessu sinni.

Það hefur reyndar lengi verið sterkur öfgaþráður í frönskum stjórnmálum. Nú er það Þjóðfylkingin sem er helsta birtingarmynd þessa, en frambjóðandinn sem er yst til vinstri Jean Luc Mélenchon fékk næstum tuttugu prósent í kosningunum í gær. Á það má minna að svo seint sem 1978 fékk hinn stalíníski kommúnistaflokkur Frakklands 20 prósent í kosningum. Bæði menntamenn og verkamenn aðhylltust hann – það er reyndar sérkennilegt að talsvert af fylgi gömlu kommanna færðist yfir til Þjóðfylkingarinnar með tíð og tíma. Milli ysta hægrisins og ysta vinstrisins eru kannski ekki gagnvegir en örugglega nokkuð greiðfærar bakdyr.

Annað sem er merkilegt er hrun flokkanna sem hafa haft yfirburði í frönskum stjórnmálum. Sósíalistaflokkurinn er í tætlum eftir valdatíð Hollandes. Forsetaferill hans hefur verið meira og minna raunasaga, áður fyrr báru franskir fjölmiðlar mikla virðingu fyrir forsetanum, umgengust hann eins og hann væri upphafin persóna, en í valdatíð Hollandes hefur það sannarlega breyst. Frá fyrsta degi var hann dreginn sundur og saman í háði.

Francois Fillon var frambjóðandi hreyfingar lýðveldissinna – hún byggir á arfleifð De Gaulles forseta. Það var hann sem skóp fimmta lýðveldið franska, þetta er í grunnin stjórnarskrá sem tryggir forsetanum mikil völd. Margir hafa talað um að nauðsyn sé að breyta þessari stjórnarskrá sem var samin utan um þennan sterka leiðtoga sem De Gaulle var. Fillon lenti í hneykslismálum – annars hefði hann hugsanlega verið á leiðinni í forsetastólinn.

En á sama tíma og kosið er um forseta Frakklands er líka kosið til þings. Og þar vandast málið aðeins. Macron hefur ekki á bak við sig stjórnmálaafl sem á eftir að ná tökum í þinginu. Þar verður hann háður atbeina annarra stjórnmálaflokka. Það getur gert honum erfiðara fyrir að stjórna.

Árni Snævarr sem þekkir afar vel til franskra stjórnmála skrifar:

Macron-Le Pen í seinni umferð eftir tvær vikur – ekki óvænt út af fyrir sig. En það verða líka þingkosningar. Forseti sem hefur þingmeirihluta að baki sér í Frakklandi hefur gríðarleg völd, en hafi hann þingið á móti sér er það allt annað mál. Francois Hollande lætur nú af völdum. Fyrir fimm árum lofaði hann öllum öllu og stóð nánast ekki við neitt. Þrír frambjóðendur sem höfðu setið í ríkisstjórn hans; Macron, Mélenchon og Hamon, fengu hins vegar samanlagt um það bil helming atkvæða. Hamon og Mélenchon hafa svipaðar skoðanir og það er freistandi að segja að vinstrihreyfingin hefði fengið 26% og komið frambjóðanda í seinni umferð, ef hún hefði fylkt sér að baki einum frambjóðanda. Þetta er þó einföldun því margt af Melenchon-liðinu er sannarlega „loony left“, og skilar frekar auðu en að sætta sig við málamiðlanir. Ekki víst heldur að fylgimenn Hamon hefðu kosið Mélenchon. Hægrimenn eru í sárum og Fillon sætir mikilli gagnrýni, ekki bara fyrir spillingu, heldur einnig fyrir örvæntingarfullar tilraunir til að toga Lýðveldissinna-flokkinn til hægri á síðustu metrunum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út