Lúgusjoppan við Umferðarmiðstöðina hefur lokað í hinsta sinn. Hún heyrir til fortíðinni. Kannski var tími hennar löngu liðinn? Nú eru opnar búðir alla nóttina um allan bæ. En einu sinni var Umferðarmiðstöðin einn um hituna. Þangað streymdi fólk eftir lokun skemmtistaða. Út um lúguna voru seldar samlokur með hangikjötssalati, bland, sígarettur – og sviðin sem urðu tákn þessa staðar.
Planið fyrir framan Umferðarmiðstöðina var mjög líflegt þegar leið á nóttina. Þangað kom fullt fólk slangrandi innan úr bæ, aðrir komu í leigubílum, þarna voru holur og pollar, það verður seint sagt að næturlífið í kringum BSÍ hafi verið sérlega fágað.
Við fjölluðum um Umferðarmiðstöðina og bókmenntirnar í síðustu Kilju. Þar koma við sögu höfundar eins og Einar Kárason, Böðvar Guðmundsson, Bragi Ólafsson og Sigfús Bjartmarsson sem orti þetta kvæði um Ummarann, eins og hann kallaði hann. Þetta er mjög sannferðug lýsing á staðnum eins og hann var í kringum 1980, á blómaskeiði sínu.
Leigubílarnir aka
fólkið tínist burt
yfir ruslið og slabbið
fáeinir krakkar úr stuði
og þreyttir menn og feitar konur
af eldri sortinni
andlitin eins og klæðnaðurinn
svolítið hjárænulegt í morgunbirtunni
og ummarinn er að loka
Hér er svo innslagið úr Kiljunni.
.