Það er skrítið kerfi þar sem stjórnarflokkur getur boðað til kosninga þegar honum hentar – daginn sem gengi hans er sem mest í skoðanakönnunum. Þetta er það sem Theresa May og Íhaldsflokkurinn gera í dag – það verða kosningar í Bretlandi 8. júní.
Það leikur enginn vafi á að Íhaldsflokkurinn vinnur stóran sigur í kosningunum. Í nýjustu skoðanakönnunum er flokkurinn með tuttugu prósentum meira fylgi en Verkamannaflokkurinn, munurinn hefur ekki verið meiri um langt árabil. Könnun sem Independent birti í gær sýndi að Íhaldið er með 46 prósent, Verkamannaflokkurinn með 25 prósent.
Jeremy Corbyn hefur verið liðónýtur formaður Verkamannaflokksins. Hans bíður mikil niðurlæging. Líklega er of seint fyrir Verkamannaflokkinn að skipta um formann fyrir kosningarnar, Corbyn mun fara í gegnum þær, flokkurinn dragnast andlaus á eftir, en síðan mun Corbyn þurfa að segja af sér.
Íhaldsflokkurinn mun líka taka fylgi frá Ukip. Áðurnefnd skoðanakönnun sýnir að þrír af tíu kjósendum Ukip í síðustu kosningum ætla nú að kjósa Íhaldsflokkinn. Ástæðan er ekki síst sú að Íhaldsflokkurinn hefur færst nær Ukip, tekið upp stefnumál hans, og því má segja að Ukip hafi sigrað á sinn hátt.