Allt í einu eru forsetakosningarnar í Frakklandi orðnar meira spennandi en áður var. Og um leið ógnvænlegri. Ástæðan er sú að nú hefur opnast leið fyrir Marine Le Pen til að komast í forsetastólinn sem ekki var sýnileg áður. Fylgi Le Pen hefur reyndar farið minnkandi, en það sem hefur gerst er að sósíalistinn Jean Luc Mélenchon hefur sópað að sér fylgi og mælist nú með 20 prósent. Le Pen er kölluð hægri popúlisti – Mélenchon er þá vinstri popúlisti. Hann er afar mælskur og lætur mjög finna fyrir sér í sjónvarpskappræðum. Hann hefur reynt áður í forsetakosningum, en nú er hljómgrunnur fyrir honum en áður.
Enn leiða Emmanuel Macron og Marine Le Pen í skoðanakönnunum. Líklegast er að þau komist í seinni umferð kosninganna. Skoðanakannanir sýna að þar muni Macron, sem er evrópusinnaður og frjálslyndur, mala Le Pen. Í nýrri könnun er bilið 63 prósent á móti 37 prósentum. Macron er ekki ósvipuð týpa og Justin Trudeau í Kanada.
En nú gæti það gerst að það verði ekki Macron sem kemst í seinni umferðina heldur Mélenchon. Og þá yrði uppgjörið milli hægri og vinstri popúlistans. Þau eru reyndar bæði andsnúin Evrópusambandinu svo gera má ráð fyrir að kosningaþáttaka yrði afar dræm. Miðjunni í frönskum stjórnmálum líkar illa við þau bæði. Ef Macron fer áfram mun hann fá fylgi frá miðjunni og frá hægri og vinstri. Það myndi tryggja kjör hans. Annað gildir ef ystu pólarnir í frönskum stjórnmálum takast á.
Mélenchon vill 100 prósent skatt á laun sem eru yfir 35 þúsund evrum, hann vill leggja niður fimmta lýðveldið í Frakklandi og stofna hið sjötta, hann er á móti Evrópusambandinu og vill að Frakkland dragi sig úr Nató. Og nú er hann að ná meiri árangri í stjórnmálum en fyrr.