Vinstri græn eru nú með um 25 prósenta fylgi í skoðanakönnunum. Það er eitthvert mesta fylgi sem flokkur sem telst vera svo langt til vinstri hefur mælst með í stjórnmálasögu Íslands. En á sama tíma er Gunnar Smári Egilsson að þreifa fyrir sér um stofnun sósíalistaflokks. Hann – og hugsanlegt samstarfólk hans – virðast meta það svo að VG iðki ekki raunverulegan sósíalisma. En hvað er VG þá?
Nýr sósíalistaflokkur myndi ef til vill höggva skörð í raðir VG – og kannski fleiri flokka. Það er hins vegar dálítið vandasamt að stofna flokk á nýbyrjuðu kjörtímabili. Hann getur náttúrlega orðið vettvangur hugmynda og málfunda, jafnvel sleppt því að hugleiða framboð, en það getur verið erfitt að halda dampi þegar kosningar eru langt undan. Auðvitað er alltaf möguleiki að ríkisstjórnin falli, en að öllu óbreyttu eru næstu kosningar sem verða háðar sveitarstjórnakosningar vorið 2018.
Svo er spurning hvort annar nýr flokkur líti dagsins ljós. Það er talsvert verið ýta undir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fari og stofni sinn eigin flokk. Manni gæti jafnvel dottið í hug að sé verið að plægja jarðveginn fyrir flokksstofnun. Stundum hefur manni virst að sé aðeins tímaspursmál hvenær skilji leiðir milli Sigmundar og Framsóknarflokksins.
En eitt af því sem vekur eftirtekt á þinginu sem byrjað nú eftir jól er að samkomulagið milli Framsóknar og VG er orðið býsna gott. Lilja D. Alfreðsdóttir og Katrín Jakobsdóttir voru til dæmis saman með sjónvarpsþátt á ÍNN um daginn og fór afar vel á með þeim. Kannski hefðu VG og Framsókn vel getað starfað saman í ríkisstjórn þrátt fyrir allt?
Það væri svo saga til næsta bæjar ef hér yrðu til tveir nýir flokkar, annar undir forystu Gunnars Smára, hinn undir forystu Sigmundar.