Hér hafa gerst undur og stórmerki. Komið er fram Eurovisjón lag sem gæti faktíst lifað í mörg ár eftir keppnina. Lagið er frá Portúgal, flutt af Salvador Sobral, samið af systur hans Luísa Sobral. Systkinin munu bæði vera djasstónlistarfólk, hún hefur starfað í Bandaríkjunum, stundaði nám í Berklee College of Music – þangað sem Kári sonur minn fer í sumar.
Þarna eru greinileg áhrif frá tónlistarhefð Brasilíumanna og hin portúgalska fadoi – sem er gott. Þetta er fjarri iðnaðarpoppinu sem svo oft glymur í Evróvisjón. Og það sem meira er, lagið er flutt á portúgölsku, því ómþýða tungumáli, ekki ensku eins og mestallt Evróvisjón núorðið. Vonandi fara þeir ekkert að breyta því.
Hlýtur að vinna. (Manni finnst reyndar nokkrar línur þarna minna á annað lag, ég held það sé þetta, – eftir Miller og Wells, heitir Yfir fannhvíta jörð á íslensku.) En lagið fer með mann aftur í tíma þegar lög í Evróvisjón voru flutt með undirleik hljómsveitar, strengjasveitar yfirleitt, og þetta lag myndi njóta sín í slíkum flutningi. Ólíkt öllum lögunum sem eru sungin en undirspilið leikið úr tölvu eins og þetta sé karaókí – og hljómar einatt hljómar eins og það komi úr dós.