Við héldum einu sinni að netið væri frábært tæki til lýðræðislegrar umræðu og upplýsinga. En það eru farnar að vakna svo margar efasemdir um það. Ég hef skrifað um sumt af því í pistlum hér.
En hér er eitt enn, hvernig farið er að misnota netið í auglýsingaskyni. Undanfarið hef ég leitað að flugi á leiðum frá Norður-Evrópu til Santorini og frá Aþenu til Bandaríkjanna.
Nú fyllast vefsíður sem ég opna af auglýsingum um flug á einmitt þessum leiðum. Þetta hefur semsagt verið skráð og þá verða til auglýsingar sem beinast beint að mér.
Konu minni varð það á að skrifa orðið Samsonite á umræðuþráð og nú streyma auglýsingar um ferðatöskur inn í tölvuna hennar.
Þetta er satt að segja hreinn óþverri. Það er einhver hugbúnaður sem framleiðir svona auglýsingar í sífellu og tilfinningin er að þetta sé rétt að byrja. Við eigum eftir að sjá miklu meira af svona einstaklingsmiðuðum auglýsingum – og það leiðir auðvitað hugann líka að pólitískum áróðri. Og líka eftirliti. Maður verður kannski að fara að passa sig að slá ekki inn óheppileg orð á netið?
Geta notendur internetsins varið sig? Hvernig þá?
Þessar auglýsingar birtust þegar ég ætlaði að lesa Guardian. Þetta er eins og manni sé gerð fyrirsát.
En þessar auglýsingar birtust á bloggsíðu Sigurveigar, samdri með Word Press, þegar hún var að setja þangað inn nýtt efni. En þegar ég opna síðuna hennar í minni tölvu birtast þar fleiri flugauglýsingar.