fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Naustið, Borgin, Saga – glæsistaðir sem voru eyðilagðir

Egill Helgason
Fimmtudaginn 6. apríl 2017 16:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einhver glæsilegasti veitingastaður sem hefur verið til á Íslandi var Naustið. Hann var í gömlu bátaskýli neðst í Vesturgötunni. Þetta var staður með einstaka stemmingu. Gluggarnir voru eins og kýraugu og innréttingarnar minntu á sjóinn. Sætin voru í básum. Þjónusta var fagmannleg, þarna komu fram skemmtikraftar eins og Savanna tríóið og Ragnar Bjarnason. Á efri hæðinni var frægur bar þar sem Símon réð ríkjum. Hann var annálaður barþjónn. Barinn sóttu ýmsir þekktir gestir, hann var vinsæll hjá mennta- og listamönnum á sjöunda áratugnum.

Ég kom fyrst í Naustið þegar ég var barn með foreldrum mínum. Þá var einn vinsælasti rétturinn hinn svonefndi körfukjúklingur. Þetta var nýstárlegt. Kjúklingur var almennt ekki á borðum Íslendinga á þessum tíma og þótti herramannsmatur, ekki hversdagsfæða eins og nú er. Það voru helst konurnar sem fengu körfukjúklinginn. Listin var að narta varlega og pent í hann – það mátti borða með höndunum, en ekki graðga í sig fuglinum eins og nú er gert á KFC.

Svo var Naustið gereyðilagt. Staðurinn mátti reyndar muna fífil sinn fegurri. En það sem gerðist er að hópur Kínverja komst yfir húsið, ruddi út gömlu innréttingunum – breytti þessu í skammlífan kínverskan veitingastað. Orðrómur hefur verið um peningaþvætti í þessu samhengi. Nú hefur Naustið lengi staðið autt. En svona leit það út á gullaldartímanum. Algjör klassi!

 

 

Fleiri sögufrægir veitingastaðir á Íslandi hafa orðið eyðileggingu að bráð. Þegar ég var ungur maður starfaði ég sem næturvörður á Hótel Borg. Þá fann ég bækling sem sýndi hvernig veitingasalir hótelsins litu út þegar þeir voru opnaðir 1930. Hvílíkur glæsibragur! En þegar ég vann á Borginni var búið að rífa þetta allt burt, eftir stóðu ómerkileg en máski nytsamleg húsgögn innan um litlausa veggi og þiljur.

Æskan skemmti sér á Borginni á þessum árum, var þar full flestar helgar,  en gömlum gestum þar leist ekki á blikuna. Ég man einu sinni að mikill Íslandsvinur, danskur ritstjóri, stormaði út með tösku sína um miðja nótt. Hann sagði mér að hann hefði gist á hótelinu í Íslandsheimsóknum í marga áratugi, en nú spurði hann æstur: „Er þetta hótel eða hóruhús?“

Síðan hafa menn hvað eftir annað reynt að endurinnrétta Borgina í þeirri von að endurskapa gamla glæsibraginn. Það hefur í raun aldrei tekist. Síðasta andlitslyftingin var í art deco stíl, en hún virkaði fölsk, langt frá því að vera upprunaleg. Nú er að opna nýr matstaður á Borginni – vonandi tekst vel til. Svona leit Gyllti salurinn út 1930.

 

 

Annar staður sem var gjöreyðilagður var Mímisbar á Hótel Sögu. Mímisbar var í flottum alþjóðlegum stíl með líkt og stjörnum í loftinu. Í innréttingunni ríkti tíðarandi áranna í kringum 1960, maður hefði eins getað búist við að James Bond labbaði þarna inn og pantaði sér martíníkokkteil. Það eina sem var við hæfi að drekka á Mímisbar voru long drinks, eins og það hét, ekki bjór eða vín. Þetta var líka tíminn þegar voru alvöru þjónar, eins og má sjá á myndinni hér fyrir neðan. Hún er tekin þegar Mímisbar opnaði 1964. Þá var reyndar talað um „vínstúku“ sem er fínt íslenskt nafn yfir bar.

En Mímisbarnum var breytt þegar Hótel Saga var endurinnréttuð. Öll sú framkvæmd var sérlega misheppnuð. Glæsilegum sölum var breytt í eitthvað sem leit út fyrir að það kæmi úr IKEA. Innréttingarnar voru í algerri andstöðu við karakter hússins. En nú heyri ég á skotspónum að hugmyndir séu uppi um að endurskapa Mímisbar eins og hann leit út hér áður.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út