Hér er innslag úr Kiljunni sem ég er nokkuð ánægður með. Þarna er fjallað um Viðey, eyjuna hérna úti á Sundunum, sem er furðu fáfarin miðað við hvað hún er nálægt okkur. Í Viðey er engin búseta nú, en það er nokkuð nýtilkomið. Þarna var klaustur á miðöldum, síðar mikið höfðingjasetur, þarna reis glæsilegasta hús landsins – og á fyrri hluta síðustu aldar var þorp í austurhluta Viðeyjar þar sem var mikil fiskvinnsla.
Þorpið kallaðist Sundabakki, það fór endanlega í eyði á stríðsárunum, en rústir þess eru enn sýnilegar. Það er merkilegt að sjá eyðibyggð inni í höfuðborg landsins.
Í innslaginu í Kiljunni koma meðal annarra við sögu Jón Arason, Diðrik frá Minden, Skúli Magnússon, Magnús Stephensen og Charles Lindbergh. Þegar flugkappinn mikli kom til Íslands að leita að lendingarstöðum á leiðinni yfir Atlantshafið lenti hann flugvél sinni á sjónum við Viðey og gisti þar í svokölluðu Björnshúsi.
Það er svo smá neðanmálsgrein í þessari sögu, eins og kemur fram í innslaginu, að í skáldsögunni The Plot against America ímyndar Philip Roth sér að Lindbergh verði forseti Bandaríkjanna og geri griðasátmála við Adolf Hitler. Hann er undirritaður í Reykjavík 1941 og kallaður Reykjavíkursamkomulagið.
Lindbergh þótti hallur undir nasista og var í fararbroddi þeirra sem vildu alls ekki að Bandaríkin blönduðu sér í heimsstyrjöldina.
Stundum hefur verið rætt um Sundabyggð, og þar með að aftur verði búseta í Viðey. Þar verði reist íbúðarhverfi. Þetta gæti komið í kjölfar þess að lögð verði brú yfir Sundin. Í raun er engin sérstök ástæða fyrir því að hafa eyjuna óbyggða, þótt náttúrlega verði að gæta að svæðinu í kringum sjálfa Viðeyjarstofu.
Innslagið úr Kiljunni má sjá hérna á vef RÚV.
Mannlíf í þorpinu Sundabakka í Viðey á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þarna eru nú rústir einar.