Fylgishrun Viðreisnar og Bjartrar framtíðar gerist afar hratt, ekki eru nema tveir mánuðir síðan ríkisstjórnin var mynduð. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins í dag eru flokkarnir með – ná hvorugur manni inn á þing. Viðreisn er með 3,1 prósent í könnuninni, Björt framtíð með 3,8 prósent.
Þetta hefur margvísleg áhrif. Það staðfestist rækilega sem sagt er að stjórnmálaflokkar gjalda þess oft þegar þeir fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum, hann eykur fylgi sitt, hinir tapa. Þeir sitja oft uppi með erfiðu málin og óstöðugt fylgi, meðan Sjálfstæðisflokknum vex ásmegin. Hann fær 32 prósent í könnuninni og má vel við una. Og líf stjórnar sem hefur aðeins eins þingsætis meirihluta virkar ótryggara en fyrr. Stuðningsmennirnir ókyrrast, það er líklegra en fyrr að einhverjir úr þingliðinu hlaupi út undan sér, í slíku fylgisleysi þverr sannfæringarkrafturinn og sjálfstraustið.
Að öllu óbreyttu ættu að vera fjögur ár eftir í stjórnarsamstarfinu. En það er sálrænt erfitt að hafa svo lítið fylgi. Getur reynst afar torvelt að endurheimta það, þótt það sé náttúrlega ekki óhugsandi – sbr. Bjarta framtíð fyrir kosningarnar. Það grefur um sig vantraust og óvissa. Maður skynjar nokkuð sterkt að sumir þingmennirnir úr Viðreisn og BF eru líkt og á nálum. Umræðan um flokkana er hörð og óvægin og erfitt fyrir marga þeirra að höndla hana.
Það er ýmislegt sem er að reynast Viðreisn og Bjartri framtíð erfitt í upphafi stjórnarsamstarfsins. Umræða um fátækt, um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, sala á bönkum – og svo sú útbreidda kenning að flokkarnir hafi samið frá sér stefnumálin í stjórnarmyndunarviðræðunum.
Á sama tíma er fylgi Vinstri grænna komið í hæstu hæðir, er heil 27 prósent. Miðað við könnunina færu VG, Píratar og Samfylkingin létt með að mynda ríkisstjórn. En það er kannski dálítið til í því sem Marinó G. Njálsson segir um VG, þegar flokkurinn gerir lítið bætir hann við sig, fylgið leitar frekar burt þegar þingmenn flokksins beita sér.
En svo er athyglisvert að talsverður samhljómur virðist vera að myndast milli Framsóknarflokksins og VG eftir ýfingar undanfarinna ára.