Frændi minn einn átti plötur með hljómsveit Sven Ingvars. Hann átti líka plötur með Savanna tríóinu. Þegar ég fór í heimsókn til hans vildi ég frekar hlusta á Savanna. Hann átti engar Bítlaplötur.
Sven Ingvars hljómaði í útvarpinu í tíma og ótíma. Fæstum börnum eða unglingum fannst þetta skemmtileg músík. Þau vildu fekar Bítlana eða Stones, en lítið framboð var af þeim í útvarpinu. Það var of villt. Sven Ingvars þótti nokkuð „seif“, eins og ein vinkona mín orðar það. Þetta var málamiðlun – og fæstum finnst þær skemmtilegar.
Nokkur laga Sven Ingvars voru tekin upp af íslenskum hjómsveitum og leikin með íslenskum textum, eins og tíðkaðist í þá daga.
Þetta var á tíma þegar Ísland var nær Norðurlöndunum. Við lásum dönsku blöðin, Hjemmet og Familie Journal, skandinavískar myndir eins og Karlsen stýrimaður nutu mikilla vinsælda, norrænir leikarar og söngvarar voru líkt og heimilisvinir – eða hver man ekki eftir Snoddas?
En forsprakki þessarar vinsælu sænsku hjómsveitar, Sven-Erik Magnusson, er nú látinn. Hann lék ásamt sveitinni í Austurbæjarbíói 14. mars 1967, fyrir fimmtíu árum semsagt. Þá var Sven Ingvars kynnt sem „vinsælasta hljómsveit Norðurlanda“.
Afar líklegt er að Sven Ingvars hafi í Austurbæjarbíói leikið þetta lag, eitt hið vinsælasta sem sveitin flutti, Jag ringer på fredag, Þetta hljómaði oft í útvarpinu, en upptakan er frá Noregi.