Yfirleitt vekja kosningar í Hollandi ekki sérstakan áhuga. Hollensk stjórnmál þykja ekki sérlega spennandi. Þar eru einatt við völd samsteypustjórnir sem gera alls kyns málamiðlanir. Fæstir vita hvað forsætisráðherra Hollands heitir. En það breytir því ekki að Hollendingum vegnar almennt vel, þeir búa við mikla velmegun í einu ríkasta samfélagi heims. Og svo hefur verið um langt skeið.
En nú eru augu heimspressunnar á Hollandi. Það er vegna kosninga þar sem jafnvel er búist við að hægriöfgamaðurinn Geert Wilders sigri. Maður les alls konar fyrirsagnir um þetta, en fæstir nenna líklega að lesa smáa letrið. En í grein eftir Simon Kuiper í Financial Times segir að Hollendingar sjálfir hafi ekki yfirmáta miklar áhyggjur af Wilders. Hann er ekki að fara að ná völdum eftir kosningar, þótt hann kunni að fá meira en fimmtán prósenta fylgi.
80-85 prósent kjósenda í Hollandi greiða Wilders ekki atkvæði.
Enginn flokkur vill vinna með Wilders í samsteypustjórn, honum verður ekki boðið í neitt slíkt samstarf, og raunar er spurning hvort Wilders kæri sig um það. Hann fær næga athygli hvort eð er.
Kuiper bendir á að Hollendingar sjálfir séu farnir að verða leiðir á Wilders. Hann hefur verið lengi í stjórnmálum. Pólitíkusar sem enginn hefur heyrt um utan Hollands hafa fengið meiri athygli í kosningabaráttunni. Það er líka nefnt að vinstri flokkar sem vilja starfa saman eftir kosningar hafi mun meira fylgi en Wilders – sem situr einn að sínum væng stjórnmálanna.
Á Vísi birtist frétt um kosningarnar í Hollandi sem er nokkuð villandi – líkt og títt er um fréttir af þessum kosningum. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, skrifar á Facebook:
Las þessa einkennilegu „frétt“ sem segir að kannanir bendi til þess að Frelsisflokkurinn (en í honum er eini meðlimurinn Geert Wilders – til að gulltryggja sig gegn fjandsamlegri yfirtöku) muni sigra í komandi kosningum í Hollandi og fá 25 af 76 sætum í neðri deild þingsins (e. House of Representatives).
Tvær athugasemdir: 1) Í neðri deildinni sitja 150 þingmenn – ekki 76. 2) Þó Frelsisflokkur fengi flest atkvæði benda kannanir til þess að þorri Hollendinga muni kjósa flokka sem nánast örugglega fara ekki í stjórn með honum. Í Hollandi er enginn þröskuldur. Flokkur þarf bara 0,67% (1/150) til að fá þingmann – enda eru þingflokkar þar margir og litlir.
Svo hver er sigurvegari? Sá sem stærsti (litli) minnihlutinn kýs – eða allir hinir litlu flokkarnir sem fyrirlíta það sem Wilders stendur fyrir?
Er einhver ástæða til að ýkja árangur hægri þjóðernis-popúlista í Vestur-Evrópu? Þeir hafa sumsstaðar fengið töluvert fylgi – en eru (enn) í miklum minnihluta allsstaðar á þessum jarðarinnar parti …