Eins og stór hluti þjóðarinnar ætla ég að horfa á Evróvisjón söngvakeppnina í kvöld. Ég á von á að starfsfélagar mínir á Rúv setji upp stórglæsilega sýningu í Laugardalshöll.
Þarna munum við væntanlega heyra lögin sem komust í úrslitakeppnina í síðasta skipti á íslensku. Í raun er það heldur döpur þróun að keppendur í Evróvisjón eru hættir að syngja á þjóðtungum sínum, það virkar nú eins að það sé nánast skylda að nota ensku. Kannski eiga lög á öðrum málum ekki séns. En þetta var öðruvísi þegar Volare var keppninni á sínum tíma, ætli það sé ekki besta Evróvisjónlagið fyrr og síðar? Þá var ennþá lifandi tónlistarflutningur í keppninni, nú er allur undirleikur á bandi, annað er hreinlega bannað. Kröfur sjónvarpsins hafa orðið tónlistinni yfirsterkari.
En ég hef svolítið verið að velta fyrir mér meðferð tungunnar í þessari keppni. Það virðist með öllu gleymt að í íslensku er áhersla ávallt á fyrsta atkvæði orðs. Þetta á við jafnt í töluðu sem sungnu máli. Við heyrum nokkuð skerandi dæmi um þetta í keppninni þetta árið þar sem áherslurnar í söngnum eru mjög sérkennilegar og vægast sagt óíslenskar. Þegar menn fara að syngja á ensku er þetta auðvitað ekki vandamál lengur – þangað stefnir þetta allt – en kannski er þetta eitthvað sem mætti laga með smá tilsögn?