Einhverja greinarbestu lýsingu á efnahags- og atvinnusögu Íslands er að finna í bókarhluta í ellefta og síðasta bindi Sögu Íslands sem kom út fyrir skömmu. Þetta er bókarkafli – í raun á lengd við heila bók – ritaður af sagnfræðingnum Pétri Hrafni Árnasyni og ber heitið Frá herra Cable til doktor Franeks.
Þarna er rakin sagan frá því að Ísland fékk fullveldi í lok fyrri heimsstyrjaldar og fram yfir hrun og búsáhaldabyltingu, í titlinum getur Pétur tveggja nafna, Eric Grant Cable, sem var breskur ræðismaður á Íslandi fram til 1919 og var mjög ráðríkur, hlutaðist jafnvel til um mannaráðningar, og Franek Roswadowski, sem var erindreki Alþjóða gjaldeyrissjóðsins á Íslandi á árunum eftir bankahrunið.
Það eru semsagt næstum hundrað ár undir í bókarkafla Péturs. Þarna er greint frá smáríki sem er afar fátækt í byrjun tímabilsins, vanþróað, en sækir afar hratt fram til bættra lífskjara og velmegunar. En um leið er þetta saga mikils efnahagslegs óstöðugleika, sífelldra kreppa, gengisfellinga og efnahagshafta.
Hagkerfið er náttúrlega mjög einhæft, byggir á fiskveiðum, en það er seint hægt að segja að hagstjórnin hafi verið góð eða markviss. Uppbygging Íslands sem fjármálamiðstöðvar er tilraun til að renna fleiri stoðum undir efnahaginn, en hún mistekst hrapallega.
Á sama tíma verða miklar félagslegar breytingar. Pétur nefnir að Ísland breytist frá því að vera nokkuð þröngsýnt samfélag þar sem dómharka er mikil yfir í eitt frjálslyndasta ríki í víðri veröld.
Pétur Hrafn Árnason er í viðtali um þetta verk sitt í Kiljunni á Rúv í kvöld.
Skömmtunarseðlar. Myndin kemur frá Þjóðminjasafni Íslands.