Hann er skrítinn margur lággróðurinn sem er að finna á netinu – og margt undarlegt sem nær að fanga athygli manns, þó aldrei nema stutta stund í einu. Einu sinni var útvarpsþáttur sem hét Þjóðarsálin í gangi nokkrum sinnum í viku, hálftíma í senn. Mörgum þótti það ærið. Nú er stanslaus þjóðarsál allan sólarhringinn og lítið lát á furðusögunum.
Meðal þess sem maður sér dreift á netinu í dag er grein eftir náunga sem heitir Wayne Madsen og skrifar blogg undir heitinu Freedom Fast Forward. Hann heldur því fram að George Soros – sem nokkuð hefur komið við sögu í stjórnmálaumræðu á Íslandi – hafi komið sér upp útsendurum í pólitík í Evrópu. Hann nefnir nokkra Alexis Tsipras, Yannis Varoufakis (sem hafi hlaupið í fang evrópskra bankamanna), Pablo Iglesias úr Podemosflokknum á Spáni, Beppe Grillo á Ítalíu, Martin Schultz úr SPD í Þýskalandi, Guy Verhofstadt í Hollandi – og jú svo nefnir hann Píratana á Íslandi. Þetta eru svonefndir Trójuhestar Sorosar – og til vitnis um það eru meðal annars dregnir fram Vladimir Putin og Viktor Orban.
Svo er þessu meira að segja deilt á einum stað á netinu hérlendis undir heitinu fréttaskýring. Þarna er fyrirsögnin „Píratar í fangi Soros milljarðamærings“.
Þetta verður svo enn sérstæðara þegar lesa má að Wayne Madsen slær þann varnagla að stuðningsmenn Sorosar hafi látið útbúa Wikipediu-síðu þar sem er fjallað um þá sem trúa á samsæriskenningar um Soros. Þá síðu er reyndar ekki að finna lengur, hverju sem sætir.
En á netinu er líka hægt að skoða eitt og annað um Wayne Madsen. Til dæmis að hann hélt því fram að Ísraelsmenn væru á bak við 11/9 og að Obama forseti sé hommi. Hann átti að hafa verið í klúbbi samkynhneigðra og notað ferðir á körfuboltaleiki til að ná í karla til lags við sig. Madsen var líka viðriðinn fréttaflutning um að Obama væri ekki bandarískur ríkisborgari – svokallaða birther hreyfingu. Vegna þessa taldi Madsen að Hvíta húsið undir stjórn Obamas ætlaði að ráða sig af dögum.
Myndin er af hinum umtalaða George Soros.