Það getur verið að morðæði og ofbeldisverk fákunnugs Bandaríkjamanns sem þekkir ekki mun á Íran og Indlandi og ræðst með byssulátum á indverska rafvirkja, það getur verið að það tengist ekki þeirri Trump stjórn sem nú ríkir í USA. Líklegra er þó að það tengist og þetta voðaverk sé í hnotskurn hvernig staðan er núna í USA.
Þetta skrifar Salvör Gissurardóttir, lektor í upplýsingatækni, í pistli sem hún birtir á Facebook um þann atburð þegar maður að nafni Adam Purington í borginni Olathe í Kansas myrti indverskan mann og særði annan – hann taldi þá vera Írani. Indverjarnir voru rafeindatæknifræðingar sem unnu hjá hátæknifyrirtæki. Salvör setur þetta í samhengi við breytingar sem eru að verða í atvinnuháttum og hvernig samfélög eru í stakk búin til að mæta þeim.
Fákunnugt fólk eltir Trump og ljær eyra við hans einföldu og vitlausu þjóðfélagsskýringum og beinir hatri sínu að þeim sem Trump hefur teiknað upp sem óvini. Það eru innflytjendur og sérstaklega þeir sem koma frá Mið-Austurlöndum. Það er stór og sívaxandi hópur fólks sem sér lífsafkomu sína fjara út en því miður er mennta- og upplýsingakerfi samfélaga eins og USA ekki byggt upp til að valdefla það fólk og gera það meðvitaðra um stöðu sína og ástæður fyrir því að störf hverfa og lífskjör þeirra versna. Störf hverfa og koma ekki aftur og það eru ekki indverskir rafvirkjar sem sturlaður Bandaríkjamaður sér sem Íraka sem taka þau störf, þau störf og sú lífsafkoma sem þeim fylgdu hafa horfið vegna tæknibreytinga.
En nú er svo komið í Bandaríkjunum að það eru sjálf stjórnvöldin sem ala á heiftinni og hatrinu. Hvaða afleiðingar hefur það?
En eftir situr fákunnugt fólk sem fylgir leiðtoga eins og Trump í blindni og beinir heift sinni að þeim sem hann skilgreinir sem óvini og hrekur líka í burtu og býr til skil milli sín og þeirra sem búa til það tæknisamfélag sem velmegun nútímans byggir á. Þetta mál og væntanlega mörg önnur sem enda ekki með morði sýna að í sumum stöðum í USA er ráðist að fólki vegna meints þjóðfélagsuppruna og það myrt. En þetta morð sýnir í hnotskurn hvernig fákunnugt sturlað fólk innblásið af heift sem kynt er undir af stjórnvöldum ræðst gegn tæknifólki af erlendum uppruna.
Tímaritið Foreign Policy birtir þetta mjög svo áhugaverða graf sem sýnir þjóðarframleiðslu í ríkjum heimsins. Bandaríkin eru þarna langefst með 24,32 prósent. Samt talar Trump forseti um að gera þurfi Bandaríkin mikil á nýjan leik. Það hefur holan hljóm.
Vandi Bandaríkjanna er fólginn í því hvernig gæðunum er skipt meðal landsmanna, í hinum gríðarlega ójöfnuði. Í ræðum sínum lætur Trump eins og hann vilji gera eitthvað fyrir þá Bandaríkjamenn sem sitja eftir, en í rauninni skipar hann eintóma milljarðamæringa í ríkisstjórn sína. Eins og má lesa í Financial Times býður Trump til stórveislu fyrir eina prósentið sem trónir efst í samfélaginu. Þar á meðal er Wall Street, olíufyrirtæki og hergagnaframleiðendur.
Maður efast líka um að fulltrúar tryggingafélaganna sem maka krókinn á hinu skelfilega heilbrigðiskerfi í Bandaríkjunum þurfi að líða skort. Þeir sjást hér á fundi með forsetanum sem veit hvar hann á að leita ráða um að bæta kerfið.