Nú er farið að berast út hvað endurupptökunefnd ákveður í Geirfinns- og Guðmundarmálum. Þetta verður formlega tilkynnt seinna í dag. Í fjölmiðlum segir að mál Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Cisielskis verði bæði tekin upp aftur – væntanlega gildir það sama um mál hinna.
Morgunblaðið birtir sláandi úttekt á málsmeðferðinni. Þar segir að sakborningarnir sex í málinu hafi samtals setið 17 ár í gæsluvarðhaldi. Sævar í 1533 daga. Tryggvi í 1532 daga.
Tryggvi sætti einangrun í 655 daga, Sævar í 615 daga. Nú eru þeir báðir látnir, dóu fyrir aldur fram. Þeir fengu hvorugur að lifa þetta.
Hér rifjast upp orð sem Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, lét falla á Alþingi 1998 eftir að Hæstiréttur hafði hafnað beiðni um endurupptöku málsins. Það segir sína sögu að svo háttsettur maður skuli hafa talað af svo miklum þunga á þeim tíma.
Ég segi það fyrir mig persónulega að mér urðu mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki séð sig geta haft lagaskilyrði til að taka Geirfinnsmálið upp á nýjan leik. Ég hef fyrir mitt leyti kynnt mér þetta mál rækilega í gegnum tíðina og tel að þar hafi mönnum orðið á í messu í stórkostlegum mæli á nánast öllum stigum málsins. Ég held að þó það hefði verið mjög sársaukafullt fyrir íslenska dómstólakerfið, þá hefði það verið gott og nauðsynlegt, hundahreinsun fyrir okkur ef nota má það óvirðulegt orð, að fara í gegnum það mál allt og með hvaða hætti það var unnið. Þeir sem hafa kynnt sér það mál rækilega geta ekki annað en sagt að þar var víða pottur brotinn […] Það var ekki aðeins eitt dómsmorð framið á allri þessari vegferð, þau voru mörg dómsmorðin sem framin voru á þessari vegferð allri og það er mjög erfitt fyrir okkur að búa við það.
Myndin sem fylgir sláandi umfjöllun Sunnu Óskar Logadóttur um málsmeðferðina í Geirfinns- og Guðmundarmálum á mbl.is. Hún er skyldulesning í dag, þar er lýst hrikalegri meðferð á sakborningunum.
Hér er svo til upprifjunar brot úr dagbók sem Tryggvi Rúnar hélt meðan hann sat í varðhaldi. „Sannleikurinn kemur alltaf í ljós þó seint verði.“