fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2024
Eyjan

Stiklað á stóru í stjórnarsáttmála Engeyjarstjórnarinnar

Egill Helgason
Þriðjudaginn 10. janúar 2017 18:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er margt lipurlega orðað í stjórnarsáttmálunum og þar eru fyrirheit sem hljóma vel. Leiðarorðin eru jafnvægi og framsýni, en maður greinir að ær og kýr stjórnarflokkanna, a.m.k. Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar, er aðhald í ríkisfjármálum. Samt er gefinn ádráttur um ýmis verkefni sem eru kostnaðarsöm – það á eftir að koma í ljós hvernig gengur að samþætta þetta.

Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um átak í heilbrigðismálum og hröðun byggingar spítalans við Hringbraut, en að auki er talað um uppbyggingu í öldrunarþjónustu, átak til að stytta biðtíma, styrkingu heilsugæslunnar og minnkandi greiðsluþáttöku almennings. Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra mun leiða þetta verkefni – það er stórt og spurning úr hversu miklu fjármagni hann hefur að moða. Ef þetta gengur ekki eftir gæti Óttarr, úr smáflokknum Bjartri framtíð, verið hentugur blóraböggull.

Það vekur athygli að í stjórnarsáttmálanum er boðuð nokkuð umburðarlynd stefna í innflytjendamálum og beinlínis er talað um auðinn sem felist í fjölmenningarsamfélagi. Segir að mannúðarsjónarmið skuli höfð að leiðarljósi við afgreiðslu umsókna um vernd, stefnt skuli að því að taka á móti fleiri flóttamönnum og að einfalda skuli veitingu atvinnuleyfa fyrir fólk utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Ísland á að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar. Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum mynda þar sterkan grunn.

Nokkuð langur kafli fer í landbúnaðarmálin og endurskoðun búvörusamningsins sem eigi að ljúka með nýju samkomulagi við bændur 2019. Þarna er mælt með því að í auknum mæli verði teknir upp nýtingarstyrkir í stað framleiðslustyrkja, en líka talað um valfrelsi neytenda og endurskoðun á innflutningskvótum. Það vekur auðvitað athygli að í fyrsta sinn fáum við landbúnaðarráðherra sem kemur úr þéttbýlinu.

Í sáttmálanum er talað um að unnið verði gegn skattaundanskotum og eru skattaskjól þarmeðtalin. Það er talað um nauðsyn þess að leggja á græna skatta. Í umhverfismálum er áréttað að farið verði eftir Parísarsáttmálanum, að unnin verði áætlun um vernd miðhálendisins og ekki verði efnt til „ívilnandi fjárfestingarsamninga“ vegna uppbyggingar mengandi stóriðju – en um leið segir reyndar að ekki verði „gengið á eignar- og nýtingarrétt einstaklinga nema brýnir almannahagsmunir krefjist þess“.

Peningastefnuna skal endurskoða af sérstakri ráðherranefnd, en þingmannanefnd á að leggja fram tillögur í stjórnarskrármálum ekki síðar en 2019. Þar er kveðið á um að miðað verði að jöfnun atkvæðavægis. Einkavæðing bankanna er á dagskrá en sagt að þar skuli ríkja varfærni og víðtæk sátt og ferlið vera opið og gagnsætt. Stefnt sé að því að almenningur geti fengið vissan hlut afhentan endurgjaldslaust.

Það vekur athygli að í stjórnarsáttmálunum má greina ákveðna sáttahönd til borgarstjórnarinnar í Reykjavík. Það er rætt um hugsanlegt samstarf við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu við uppbyggingu svonefndrar Borgarlínu. Einnig segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir lausn á deilunum um Reykjavíkurflugvöll.

Í utanríkismálum er aðildin að Nató áréttuð. Þar er segir líka að samstarfið við Evrópu byggist á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Umræðu um mögulega inngöngu í Evrópusambandið er slegið á frest með svofelldu orðalagi.

Komi fram þingmál um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið eru stjórnarflokkarnir sammála um að greiða skuli atkvæði um málið og leiða það til lykta á Alþingi undir lok kjörtímabilsins. Stjórnarflokkarnir kunna að hafa ólíka afstöðu til málsins og virða það hver við annan.

Evrópuumræðunni er þannig ýtt inn í framtíðina. Það er sjávarútvegsumræðunni í raun líka, í stjórnarsáttmálanum er forðast að vekja upp átök um kvótakerfið. Þarna er beinlínis talað um að núgildandi fiskveiðikerfi hafi skilað „miklum þjóðhagslegum ávinningi“ og mikilvægi aflamarkskerfisins. Útfærslan á breytingum í sáttmálanum er býsna óljós.

Kannaðir verða kostir þess að í stað ótímabundinnar úthlutunar verði byggt á langtímasamningum og samhliða verði unnið að mati á þeim kostum sem tækir eru, svo sem markaðstengingu, sérstöku afkomutengdu gjaldi eða öðrum leiðum, til að tryggja betur að gjald fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind verði í eðlilegu hlutfalli við afrakstur veiðanna. Gæta þarf að langtímarekstraröryggi í greininni og stöðugleika í byggðum.

Það er einkum þetta tvennt, Evrópa og sjávarútvegurinn, sem sætir gagnrýni nú í upphafi stjórnartíðar. Ríkisstjórnin fær tæplega langa hveitibrauðsdaga. Til dæmis skrifar Jón Steinsson hagfræðingur, sem hefur verið mjög gagnrýninn á fiskveiðistefnuna, á Facebook:

Þessi niðurstaða í sjávarútvegsmálum eru mikil vonbrigði. En það er svolítið flókið að greina orsakirnar. Einu flokkarnir sem tóku ekki þátt í neinum viðræðum upp á önnur bítti en að veiðiheimildir yrðu boðnar upp voru Samfylkingin og Píratar. Orðspor þessara flokka stendur óhaggað í þessu máli. Viðreisn og Björt framtíð sviku þennan málstað á endanum (ekki bara smá, heldur fullkomnlega). Kannski voru þessir flokkar heilir í því að berjast fyrir uppboði á veiðiheimildum í nóvember og desember. Eða kannski var það allt saman bara yfirvarp. Það er engin leið að vita. Ábyrgð VG er einnig mikil. Heldur þann versta en þann næst besta virðist vera stefna VG þegar kemur að myndun ríkisstjórnar. Verði þeim að góðu hvað það varðar. VG verður áfram fullkomnlega áhrifalaus varðandi þróun samfélagsins og tryggir að Sjálfstæðisflokkurinn ráði öllu. Ég á erfitt með að skilja hvernig félagshyggjufólk sem vill kerfisbreytingar og að þjóðin njóti arðsins af auðlindunum kýs þennan flokk.

En það bíða ýmis verkefni, og eru þá til dæmis ónefndar endurbætur í samgöngum, efling allra skólastiga menntakerfisins og átak í rannsóknum, sem einnig er rætt um, um leið og beitt er aðhaldsstefnu í ríkisfjármálum og skuldir greiddar niður. Við eigum eftir að sjá hvernig það gengur upp. Mörg áformin eru ágæt. En almennt orðaðir stjórnarsáttmálar eru ekki klappaðir í stein.

Tvennt mun örugglega einkenna stjórnina, annars vegar hvað hún hefur nauman meirihluta og hins vegar hvað staða Sjálfstæðsflokksins er sterk með mikinn fjölda ráðherra og formennsku í flestum þingnefndum. Viðreisn og Björt framtíð munu þurfa að hafa sig alla við að halda sínum málum á lofti.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dagfari: Látum ekki koma fram við okkur eins og búfénað – eini ómöguleikinn er þegar þingið hlýðir ekki þjóðinni

Dagfari: Látum ekki koma fram við okkur eins og búfénað – eini ómöguleikinn er þegar þingið hlýðir ekki þjóðinni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur hæðist að Sigmundi og upphlaupi hans í gær – „Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar“

Hildur hæðist að Sigmundi og upphlaupi hans í gær – „Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar“