fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2024
Eyjan

Kjörsóknin sem áhrifavaldur í kosningunum – önnur ríkisstjórnarmynstur

Egill Helgason
Föstudaginn 28. október 2016 18:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjálfstæðismenn eru í sókn þegar styttist óðfluga í að kjörstaðir opni. Nú eru teikn á lofti um að flokkurinn nái kjörfylginu frá því 2013, það eru viðunnandi úrslit fyrir flokkinn eftir lakt gengi í skoðanakönnunum lengi á þessu kjörtímabili. Hann gæti jafnvel bætt við sig frá 2013 – sem myndi teljast sigur.

Ríkisstjórnin fellur vegna þess að fylgi Framsóknarflokksins hrynur.

Framsókn fær þó oft meira upp úr kjörkössum en skoðanakannanir benda til. Breyta sem gæti haft áhrif á úrslitin í kosningunum og er kjörsóknin. Hún reyndist til dæmis vera áhrifavaldur í síðustu borgarstjórnarkosningum þar sem Píratar lækkuðu en Framsókn hækkaði frá því sem var í skoðanakönnunum.

Kjörsóknin var 81,4 prósent í síðustu þingkosningum kosningum, hin langlakasta í sögu lýðveldisins eins og má sjá á þessu grafi sem birtist í Morgunblaðinu. Hún var lélegust í Reykjavík þar sem 78,9 prósent greiddu atkvæði. Í borgarstjórnarkosningunum 2014 var kjörsóknin ekki nema 62,8 prósent.

Léleg kjörsókn er líkleg til að koma ríkisstjórnarflokkunum til góða, en hún getur sett strik í reikninginn hjá Pírötum. Eldra fólk skilar sér á kjörstað, hið yngra síður. Þetta er þekkt víðar, kjörsóknin var áhrifavaldur í Brexit atkvæðagreiðslunni í Bretlandi í sumar.

672215

Kjörsóknin mun þó ekki breyta því að ríkisstjórnin fellur. Skekkjan í skoðanakönnunum getur ekki verið svo stór. En Sjálfstæðisflokkurinn verður langstærstur og Bjarni Benediktsson getur gert tilkall til þess að fá stjórnarmyndunarumboð fyrstur manna. Það er hins vegar ekki líklegt að hann gæti komið saman stjórn í fyrstu umferð. Enginn flokkur virðist hafa áhuga á að ganga til liðs við núverandi ríkisstjórn og framlengja líf hennar. Ef Bjarna tækist að mynda ríkisstjórn yrði það væntanlega á seinni stigum stjórnarmyndunarviðræðna – þegar búið er að kanna aðra möguleika.

Stjórnarandstöðuflokkarnir fjórir gætu náð meirihluta – þótt það sé ekkert sérlega líklegt miðað við það sem stendur hér að ofan. En ef svo færi, gætu þeir í raun mætt með tilbúna ríkisstjórn til Guðna Th. Jóhannessonar. Það þyrfti engan sérstakan atbeina hans til að koma henni saman.

Flokkarnir verða varla sérlega áhugasamir um að fara í aðrar kosningar svo á einhverjum tímapunkti gæti komið að því að menn færu að skoða önnur stjórnarmynstur en helst hafa verið rædd.

Stefán Ólafsson prófessor skrifar hér á Eyjuna að stjórnarandstöðuflokkarnir ættu líka að horfa til Viðreisnar og Framsóknarflokksins. Hann varar við flausturslegri stjórnarmyndun:

Þess vegna ættu stjórnarandstöðuflokkarnir að hafa Framsókn og Viðreisn einnig inni í kortlagningu sinni á pólitískum möguleikum.

Samstarf við Framsókn í velferðarmálum og umhverfismálum landsbyggðar getur verið mikilvægt og farsælt. Viðreisn hefur reifað vilja til alvöru umbóta í sjávarútvegsmálum – svo nokkuð sé nefnt.

Annar möguleiki sem hefur heyrst nefndur er stjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna plús Viðreisn, þar sem Viðreisn yrði einhvers konar brú milli flokkanna lengst til hægri og vinstri. Ég sá þetta einhvers staðar nefnt „þjóðarsáttarstjórn“. Þetta virðist ekki líklegt við fyrstu sýn, en þegar komið verður að annarri eða þriðju umferð stjórnarmyndunarviðræðna, stjórnarkreppa liggur í loftinu, minnihlutastjórn eða utanþingsstjórn, getur ýmislegt gerst.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á