fbpx
Föstudagur 19.júlí 2024
Eyjan

Er vit í að Dylan fái Nóbelinn?

Egill Helgason
Fimmtudaginn 13. október 2016 12:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir eru ábyggilega ekki margir sem hafa lesið staf eftir Nóbelsverðlaunahafa síðasta árs, Svetlönu Alexejevits. Hún var samt afar verðugur verðlaunahafi. Skrifaði frábæra heimildabók um drauga Sovéttímans.

En flest þekkjum við líklega eitthvað eftir Bob Dylan, þó það sé ekki nema Blowing in the Wind. Dylan er frægari en allir verðlaunahafar síðustu tíu ára samanlagt. Patrick Modiano, Alice Munro, Mo Yan, Tomas Tranströmer, Mario Vargas Llosa, Hertha Müller, Le Clézio, Doris Lessing. Það eru ekki margir sem hafa lesið eitthvað eftir þessa höfunda – hvað þá verk eftir þá alla.

Það er líka samkvæmisleikur að telja upp höfunda sem hafa ekki fengið Nóbelsverðlaunin. Tolstoy, Proust, Tsékov, Virginia Woolf, Rilke, Borges, Nabokov, Joyce. Þessir höfundar náðu samt að verða rosa frægir. Hin síðari ár hefur verið talað um að einn kostur Nóbelsverðlaunanna sé að finna og vekja athygli á höfundum sem hefðu ekki náð alheimsfrægð ella. Á sínum tíma tókst Nóbelsnefndinni ekki að koma auga á Kafka eða Kavafis – en það var kannski ekki von.

Dylan fær verðlaunin en annar Bandaríkjamaður sem hefur verið talinn verðugur, Philip Roth, situr enn einu sinni eftir með sárt ennið. Hann hefur verið nefndur ár eftir ár, er 83 ára. Fær þau kannski ekki úr þessu. En það er nokkuð athyglisvert, og pínu skáldlegt, að Dylan er útnefndur daginn eftir að tilkynnt er um lát ítalska leikritaskáldsins Darios Fo. Hann hefur jafnvel verið talinn óverðugasti verðlaunahafinn hingað til.

Þetta er altént umdeilt, þarna er áreiðanlega umtalaðasta verðlaunaveiting í sögu Nóbelsins. Sumir munu segja að Dylan þurfi ekkert á þessu að halda, frægð hans sé næg fyrir, aðrir gætu sagt að hann sé merkasti Bandaríkjamaður sem nú er uppi – The Greatest Living American. Á einum stað las ég að hann væri lélegra skáld en Leonard Cohen – en þá má mótmæla og segja að Dylan sé mun afkastameiri, mistækari kannski, en hafi haft mun meiri áhrif.

Hér eru þrjú dæmi um viðbrögð, hvert úr sinni áttinni.

 

screen-shot-2016-10-13-at-12-42-07

 

screen-shot-2016-10-13-at-12-33-19

 

screen-shot-2016-10-13-at-13-04-22

 

Svo er náttúrlega spurning hvernig Dylan ber sig að við að taka við verðlaununum úr hendi Svíakonungs. Hann er ekki þekktur fyrir að vera mikið samkvæmisljón. Þegar hann kom eitt sinn til Íslands stóð til að bjóða honum á Bessastaði. Þá kom svar frá umboðsmanni hans: Bob Dylan never meets politicians! Um þetta og ýmsar sérviskur Dylans má lesa í grein sem ég skrifaði á sjötugsafmæli hans.

Varla mun hann syngja í Stokkhólmi á verðlaunaathöfninni 10. desember – með sinni hásu rödd. En kannski getur hann sagt eitthvað merkilegt um hvaðan hann kom og um alla áhrifavaldana, ferð þessa gyðingastráks frá hinum hollkalda bæ Duluth í Minnesota er einstök og ekki síst hvernig hann drakk sig áhrif víða að úr bandarískri menningu, bæði alþýðlegri menningu og hámenningu.Það er ekki síst merkilegt hvernig Dylan líkt og skáldaði sína eigin persónu. Hann fer ungur til New York og finnur furðu fljótt sína rödd, þar sem renna saman bókmenntir frá bítskáldum og Walt Whitman, þjóðlagatónlist frá Woody Guthrie, blús og rokk úr suðrinu. Hann mætti jafnvel bæta við öðru bindi af Chronicles, ævisögu sinni, þess hefur lengi verið beðið, en fyrsta bindið, Chronicles Volume One var afar fín lesning.

Hér er svo smá kúríósa. Dylan að lesa I Hear America Singing eftir Walt Whitman, með tónum frá Aaron Copland.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði