fbpx
Föstudagur 19.júlí 2024
Eyjan

Spítali sem skipulagsslys?

Egill Helgason
Fimmtudaginn 6. október 2016 18:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bílaumferð er aftur að aukast í Reykjavík eftir samdrátt árin eftir hrun. Þetta er ekki í samræmi við loftslagsmarkmið Parísarsamkomulagsins né hugmyndir um gott borgarskipulag, afleiðingin er aukinn troðningur á umferðargötum. Umferðarteppur eru algengar á leiðinni inn í borgina og út úr henni, á Miklubraut og Bústaðavegi. Hinn stóraukni fjöldi ferðamanna bætir varla úr skák, rútum hefur fjölgað ótrúlega mikið og sömuleiðis bílaleigubílum.

En byggðin er þannig skipulögð að erfitt er að bæta almenningssamgöngurnar, borgin er svo dreifð að þær verða alltaf frekar ófullkomnar, leiðirnar langar og ferðir strjálar. Það eru uppi hugmyndir um lest frá Keflavík og borgarstjórnin er að skoða sporvagna en hvort tveggja virkar á mann eins og fjarlæg draumsýn. Raunveruleikinn er fleiri bílar sem troðast hér um göturnar.

Það er líka vandséð að þetta verði leyst með breytingum á gatnakerfinu. Breikkun á einum vegarspotta mun ekki laga flöskuháls sem er á öðrum stað á sama vegi. Við höfum vísi að hraðbraut í gegnum Vatnsmýrina en svo er umferðin stopp á mjóum vegum vestast á Miklubraut og Bústaðavegi. Hraðbrautin var reyndar lögð í samhengi við byggingu stórs sjúkrahús sem enn er ekki farið að rísa. Samt eru vandræði með umferðina við báða enda hennar. Samgöngumannvirki eins og brú yfir á Álftanes eða þá Sundabrautin eru ekki beint að verða að veruleika þótt þau hafi verið í umræðunni lengi.

 

screen-shot-2016-10-06-at-17-53-22

 

Það verður að segjast eins og er að miðað við þetta ástand í umferðinni virðist þessi framkvæmd – risastór spítali sem er þröngvað ofan í byggðina neðst á Skólavörðuholti – verða æ óálitlegri. Hugsanlega er of seint að snúa við, kannski er búið að leggja of mikið undir og taka of mikinn tíma í skipulagningu, en þetta hlýtur að vera áhyggjuefni.

Ein hugmyndin var sú að drjúgur hluti af starfsmönnum spítalans myndi búa í nágrenninu. En það virkar á mann eins og spítalinn og flugvöllurinn hafi náð að læsast saman. Að sjúkraflugsrökin séu svo sterk að spítalinn festi flugvöllinn rækilega í sessi. Og þá verður engin íbúðabyggð í Vatnsmýrinni. Hverfin sem eru í kring bera æ meira merki aukinnar ferðamennsku, þau eru undirlögð af hótelum, gistiheimilum og Airbnb, með tilheyrandi umferð, háu íbúða- og leiguverði og flutningi fyrri íbúa í önnur hverfi. Þorri starfsmanna spítalans mun varla hafa efni á að búa í vesturborginni.

Draumurinn um að fjöldi starfsmanna spítalans myndi ganga eða hjóla í vinnu er þannig ekki sérlega raunhæfur. Bílaumferðin mun aukast enn. Spítalinn rís líklega. En fyrirætlanirnar um byggingu hans eru komnar til ára sinna, margt hefur breyst síðan. Forsendurnar eru ekki þær sömu. Ferðamennska var þá ekki orðinn langstærsti atvinnuvegurinn í Reykjavík. Það er talað um að ferðamenn verði komnir á þriðju milljón innan fárra ára, þeir fara flestir út á litla nesið þar sem Miðbærinn er. Getur hugsast að spítalinn stóri sé í þessu samhengi skipulagsslys?

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði