Niðurstöður skýrslu Sameinuðu þjóðanna um lýðheilsu hafa verið til umræðu undanfarið. Þær birtust í læknatímaritinu Lancet og voru fyrst túlkaðar sem vitnisburður um að við Íslendingar hefðum besta heilbrigðiskerfi í heimi. Það er er ekki rétt túlkun. Þarna er fjallað um heilsu og ýmsa þætti sem hafa áhrif á heilsufar fólks – sumir þeirra fylgja lífsstíl, lífskjörum, aðrir eru utanaðkomandi eða háðir umhverfinu.
Hins vegar sýnir skýrslan ótvírætt að Ísland er að flestu leyti gott land, heilnæmt og öruggt að búa í. Það er staðreynd og við getum glaðst yfir henni. Samanburðurinn við þá jarðarbúa sem hafa það verst er sláandi.
Hér má sjá hluta af töflum sem birtust með skýrslunni, þarna eru gildin frá 0 og upp í 100 en neðar má svo sjá hvað er verið að mæla. Þarna eru meðal annars náttúruhamfarir, næringarskortur, offita, útbreiðsla berkla, malaríu og lifrarbólgu, sjálfsmorð, áfengisneysla, umferðarslys, unglingafæðingar, tóbaksneysla, hreinlæti, ofbeldi, loftmengun, gæði vatns, ofbeldi og stríð.
Ísland skorar hátt á flestum kvörðum, rétt eins og fleiri lönd í heimshluta okkar. Við erum jú að mestu leyti laus við margt af því sem er nefnt hér að ofan. En það er merkilegt að sjá hvað áfengisneyslan dregur Danmörku niður.
Svo má kannski nefna að samkvæmt þessu er Svíþjóð jafnöruggur staður og Ísland. Svona fyrir þá sem eru alltaf að tala um að það sé stórhættulegt í Svíþjóð.
Skýrsluna má lesa hérna.
Hér má svo sjá löndin í heiminum þar sem ástandið er verst – og sums staðar hrein skelfing.