Þetta er merkilegt kort sem Sigurður Á. Snævarr hagfræðingur birti á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga í gær.
Kortið sýnir mannfjöldaþróun í sveitarfélögum á Íslandi milli 2002 og 2016.. Eins og sjá má fjölgar fólki Suðvestanlands og alls staðar þegar nær dregur höfuðborgarsvæðinu.
Það er fjölgun á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæðinu og austur á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð. Alls fækkar fólki í 42 sveitarfélögum en fjölgar í 32.
Sigurður sagði á ráðstefnunni:
Langvarandi fækkun á ákveðnum landsvæðum er grafalvarlegur hlutur. Þar er hætta á að sveitarfélögin verði ekki sjálfbær, hvorki fjárhagslega né félagslega.
Það er annað á kortinu sem vekur spurn – nefnilega fjöldi sveitarfélaganna. Það er feikilega vel í lagt að hafa 74 sveitarfélög í svo fámennu landi. En tregðulögmál valda því að erfitt reynist að fækka sveitarfélögunum.