fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Enginn sigurvegari?

Egill Helgason
Laugardaginn 10. september 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Örstutt athugasemd eftir prófkjör dagsins hjá Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki: Píratar og Viðreisn verða sigurvegarar komandi þingkosninga.

Þetta skrifar Svanur Kristjánsson stjórnmálafræðingur á Facebook. Ég leyfi mér að hafa ákveðnar efasemdir.

Mín kenning er sú – og hún kann alveg að reynast röng – að í kosningunum í lok október verði eiginlega enginn sigurvegari, heldur muni fylgið dreifast víða og sigrar sem kunna að vinnast hvað varðar atkvæðatölu reynast tvíbentir. Hérumbil allir gætu orðið fyrir vonbrigðum.

Sjálfstæðisflokkurinn mun líklega ekki tapa stórt frá kosningunum 2013, en það var næstlélegasta kosning hans fyrr og síðar. En hann mun engu geta bætt við sig – einhvern tíma hefði hann getað talið það víst á tíma þegar efnahagur þjóðarinnar er býsna sterkur. Þegar Bjarni Benediktsson léði máls á kosningum síðastliðið vor voru horfur á að Sjálfstæðisflokkurinn gæti unnið á.

Viðreisn er komin fram og með þekktari frambjóðendur en menn ímynduðu sér, þarna er nokkuð af fólki sem er kallað þungavikt. En Viðreisn er mjög fókuseruð á Sjálfstæðisflokkinn, það sést glöggt á því hverjir eru að fara í framboð fyrir flokkinn – þarna er fólk sem alið allan aldur sinn innan Sjálfstæðisflokksins, viðmið þess eru þaðan og það er alltaf með augun á Sjálfstæðisflokknum og viðbrögðunum á þeim bæ. Í kosningum sem snúast um að fá fylgi víðar að er þetta mikill veikleiki. Markið er sett hátt, en verður Viðreisn ánægð með fylgi upp á minna en tíu prósent?

Samfylking siglir inn í annan stóran kosningaósigur, niður úr 13 prósentunum sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum, líklega niður fyrir 10 prósentin. Gamalkunnug andlit verða í efstu sætum framboðslista í Reykjavík, Kraganum og á Suðurlandi, en nýtt fólk á listum í Norðaustri og Norðvestri. Þar eru nokkuð sterkir frambjóðendur sem hafa bæst við, en skipta varla sköpum.

Framsóknarflokkurinn á eftir að tapa að minnsta kosti helmingi fylgisins úr síðustu kosningum. Nú er reyndar Sigurður Ingi Jóhannsson hættur að útiloka framboð gegn Sigmundi Davíð sem ekki styrkti beint stöðu sína á miðstjórnarfundinum í dag. En Framsókn getur varla vænst þess að fá meira en 12 prósenta fylgi, hvor þeirra sem verður í forystu.

Björt framtíð berst við að halda sér inni á þingi. Til þess þarf hún að komast yfir 5 prósenta þröskuldinn. Tvísýnt er að það takist. Fylgi leitar bæði frá BF til Pírata og Viðreisnar.

Píratar hafa farið með himinskautum í skoðanakönnunum, en fylgið er tekið að minnka. Líklegast er að það leiti enn niður frá því sem hefur verið í könnununum. Draumar um að mynda ríkisstjórn þar sem Píratar eru í forystu eru farnir að  fjarlægjast. Það gæti þurft fimm flokka til að koma saman stjórn sem hefur þolanlegan meirihluta.  En væntingarnar eru stórar – bilið milli væntinganna og niðurstöðunnar getur valdið því að Píratar skynji mikla fylgisaukningu frá síðustu kosningum ekki sem sérstakan sigur.

Vinstri græn eru einna líklegust til að geta fagnað að loknum kosningunum. Þau fengu 11 prósent í síðustu kosningum og eru líkleg til að bæta við sig. Katrín Jakobsdóttir styrkir þá stöðu sína sem helsti foringi vinstri aflanna á Íslandi. Hún er talin líkleg til að leiða ríkisstjórn. En Vinstri græn hafa lengst af á líftíma flokksins verið í stjórnarandstöðu, og það er ekkert sérstakt áfall fyrir þá að komast ekki í stjórn.

Össur Skarphéðinsson sagði um daginn að hann teldi að stjórnarkreppa væri yfirvofandi. Það er býsna erfitt að sjá hvaða stjórn er í kortunum. Á Spáni hafa á síðustu árum komið fram tveir stjórnmálaflokkar sem hafa fengið mikið fylgi, vinstri flokkurinn Podemos og miðjuflokkurinn Ciudadamos.

Podemos eru í raun ekki langt frá Pírötum og Ciudadamos ekki langt frá Viðreisn. En nú er búið að kjósa tvívegis með stuttu millibili á Spáni og í bæði skiptin hafa kosningarnar endað í jafntefli, eða kannski má frekar kalla það pattstöðu – þriðju kosningarnar eru nú yfirvofandi.

Ég hef áður minnst á kosningarnar 1978 þegar Alþýðubandalagið, með unga framvarðarsveit, Svavar Gestsson, Hjörleif Guttormsson og Ragnar Arnalds, vann stóran sigur. Það gerði líka Alþýðuflokkurinn sem var sína ungu og ódeigu sveit, knúða áfram af hugmyndum Vilmundar Gylfasonar. Eftir langt þóf tókst að mynda ríkisstjórn. Hún var undir forystu Ólafs Jóhannessonar, sem sannarlega var hvorki ungur né unggæðingslegur, heldur hafði verið í ríkisstjórn í sjö ár á undan, fyrst með vinstri flokkum og síðar með Sjálfstæðisflokki. Kosningasigur A-flokkanna tveggja súrnaði fljótt, partur af próbleminu var reyndar að flokkarnir þoldu ekki hvor annan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði