Maður hefur oft heyrt því spáð að fylgi Pírata muni skreppa saman þegar nær dregur kosningum. Það hefur minnkað aðeins frá því það var hæst í meira en 35 prósentum, en það verður að segjast eins og er að kosningarnar eru að þróast ansi vel fyrir Pírata.
Þeir komust alveg skikkanlega frá prófkjörum sínum, í raun betur en flestir ætluðu, þrátt fyrir smá hnökra. Viðreisn virðist ætla að hafa eindreginn hægri prófíl sem skilur eftir miðju- og jafnaðarmannafylgi fyrir Pírata. Björt framtíð hefur náð að koma saman listum, en þeir eru að ansi miklu leyti skipaðir sveitarstjórnarfólki úr flokknum. Aðsókn á listana hefur semsé verið takmörkuð.
Það virðist afar ólíklegt að Samfylkingin rétti úr kútnum, allt bendir til þess að þar verði sama fólk efst á listum og endranær. Í sumum kjördæmum fæst varla neinn til að fara í prófkjör hjá flokknum. Píratar dekka að miklu leyti sama svæði í pólitík og Samfylkingin áður (plús Björt framtíð), en virka yngri, ferskari og hugmyndaríkari.
Allt spilar þetta upp í hendurnar á Pírötum. Þeim tekst líka ágætlega að leysa ágreiningsmál sín fyrir opnum tjöldum sem gefur fyrirheit um að það gæti verið allt í lagi að hleypa þeim í ríkisstjórn. Ýmislegt getur breyst en það kæmi ekkert sérlega á óvart þótt fylgi þeirra upp úr kjörkössunum yrði 20-25 prósent.