fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Valdaránstilraun í Tyrklandi

Egill Helgason
Föstudaginn 15. júlí 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það berast dramatískar fréttir um tilraun til valdaráns í Tyrklandi.

Tyrkneski herinn hefur löngum verið veraldlegur, hann hefur fylgt hugmyndum Ataturks, svonefnds föður tyrkneskum þjóðarinnar, um að Tyrkland tilheyri Evrópu og skuli laga sig að evrópskum siðum.

Þetta er í andstöðu við hugmyndir Erdogans forseta sem kemur úr íslömskum stjórnmálaflokki, ekki þó mjög róttækum. Kúgun hefur magnast á tíma Erdogans og hann lætur fangelsa blaðamenn og loka fjölmiðlum. Og það hefur ekki verið Tyrklandi til álitsauka hvernig hann hefur leikið tveimur skjöldum í átökum í Miðausturlöndum.

Framan af gekk Erdogan þó allt í haginn, í Tyrklandi var mikill efnahagsuppgangur, nýjar verslunarmiðstöðvar risu hvarvetna, ferðamenn streymdu til landsins, neysla jókst – þetta var í vissri mótsögn við hinar íslömsku kennisetningar. En Tyrkland hefur alltaf verið land mótsagna.

Herinn var alltaf mjög áhrifamikill í Tyrklandi – sem vörður veraldarhyggju og vestrænna gilda. Þegar hernum líkaði ekki við þróun stjórnmálanna greip hann inn í atburðarásina. Lengi sat einhvers konar yfirríkisstjórn sem var skipuð helstu stjórnmálamönnum og herforingjum. Þar voru stærstu ákvarðanirnar teknar, æðstu hershöfðingjar höfðu í raun eins konar neitunarvald. Erdogan lagði mikla áherslu á að draga úr áhrifum hersins, gera yfirstjórn hans óvirka. Hann lét til skarar skríða 2010. Fjölmargir herforingjar voru handteknir, ásakaðir um undirbúning valdaráns, og hnepptir í fangelsi.

Seinna kom í ljós að þetta mál stóðst engan veginn, það var ekki flugufótur fyrir valdaránstilrauninni. Málsgögn reyndust vera fölsuð og sakborningarnir voru látnir lausir í fyrra – 236 talsins. En margir hafa talið að Erdogan hefði breytt hernum þannig að hann væri ófær um að aðhafast gegn ríkisstjórninni.

Því er það stórfrétt ef tyrkneski herinn reynir að taka völdin og fer gegn jafn einráðum og valdamiklum leiðtoga og Erdogan. Ef herinn nær völdum myndi hann líklega vilja halla sér nær Evrópu og Bandaríkjunum. Tyrkneski herinn tók síðast völdin 1980, það var eftir óróatímabil í landinu þar sem mikið var um pólitísk morð og tilræði. Eftir valdaránið 1980 fram miklar fjöldahandtökur sem beindust bæði gegn róttækum múslimum og vinstri mönnum. Tyrkneski herinn var aftur á ferðinni 1997, það var ekki valdarán eins og hið fyrra, en hernum tókst að koma frá ríkisstjórn Necmettin Erbakans úr stjórnmálaflokki sem aðhylltist íslam.

Flest er óljóst um atburðina í Tyrklandi í kvöld. Það hefur verið sagt frá lokuðum brúm yfir Bosporussund og herflugvélum sem fljúga yfir Ankara. Það á að hafa komið yfirlýsing frá hernum um að hann taki völdin til að vernda lýðræði og mannréttindi. Ef valdaráðið tekst ekki er líklegt að hefndin verði skelfileg og mikil upplausn. Herinn tyrkneski er gríðarlega fjölmennur, það er ómögulegt að segja hversu mikill hluti hans er með í valdaránstilrauninni. Sé það allur herinn, þá mun hún óefað takast. En ef hernum tekst að ná stjórn landsins mun hann væntanlega þurfa að beita miklu ofbeldi til að tryggja völd sín.

Hér eru twitterfærslur sem ég fylgist með frá vini mínum sem býr í Istanbul.

 

Screen Shot 2016-07-16 at 00.02.04

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“