fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

Allir halda með Ισλανδία

Egill Helgason
Sunnudaginn 3. júlí 2016 12:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Horfðum á leik Þýskalands og Ítalíu á eyju þar sem eiginlega allir héldu með síðarnefnda liðinu. Grikkir eru hrifnari af Ítölum en Þjóðverjum – og hingað kemur mikið af fólki frá Ítalíu. Það er reyndar gott – Ítalir passa mjög vel inni í þetta Miðjarðarhafsumhverfi, þetta er enda þeirra gamla Mare Nostrum. Við fólkið að norðan virkum alltaf hálf klunnalegt hérna.

En það er samt erfitt að halda með Ítölum þegar þeir spila fótbolta. Það er sagt að Ítalir vilji gera hlutina með stíl, að fegurðin sé alltaf með, en það á ekki við þegar þeir leika knattspyrnu. Þá er pakkað í vörn, reynt að þreyta og helst svæfa andstæðinginn, í von um að geta kannski sett inn eitt mark fyrir leikslok – eða komast í vítakeppni.

Þannig að það var að sumu leyti gott að sjá Ítalina tapa. Ég hélt samt ekki með Þjóðverjum. Og margir vinir mínir hérna, sumir ítalskir, urðu leiðir.

Ég sagði fyrir leikinn að liðið sem ynni þennan leik myndi sigra á mótinu. Stend við það. Samt spila Þjóðverjar ekki eins og heimsmeistararnir frá því fyrir tveimur árum. Náðu kannski að gera það í tíu mínútur í leiknum í gær, en svo var eins og allur vindur væri úr þeim.

Vítaspyrnukeppnin var ein sú fáránlegasta sem hefur sést. Frægustu stjörnurnar tóku víti eins og þeir væru að spila með yngri flokkum. Maður beið eftir því að Neuer færi að skjóta á Buffon og Buffon á Neuer. Munaði litlu að það gerðist.

Hérna líður manni eins og stórleikurinn í þessari umferð keppninnar sé í rauninni viðureign Íslands og Frakklands. Allir eru að tala um þann leik og maður heyrir hvarvetna nafn landsins okkar í samræðum fólks. Og allir sem við heyrum í ætla að halda með Ισλανδία – Íslandi.

Við ættum líka að vera nokkuð örugg um að geta séð leikinn. Rafmagn fór af eyjunni og kom ekki á aftur fyrr en eftir næstum tvo sólarhringa. Sæstrengur hafði farið í sundur hér milli eyja og varð loks að bragði að senda skip með stórum rafölum sem nú veita orku hingað. Það er eins gott, því rafmagnsleysinu fylgdi skortur á vatni – dælur sem eru knúðar af rafmagni pumpa vatni um eyjuna.

Það er auðvitað hægt að prófa með gamla laginu, sem felst meðal annars í því að fara með ösnum í brunna sem eru hér í fjallshlíðum og flytja vatn í hús. Þetta er reyndar ekki svo gömul aðferð hérna, því rafmagn komst ekki á Ano Meria, annað þorpið á eyjunni, fyrr en 1982. Það breytist ört núna, en þegar ég kom þangað fyrst var mér sagt að það minnti enn á grísk sveitaþorp á árunum eftir stríð. Fram til 1985 var sameiginlegt baðhús fyrir eyjarskeggja, en nú er komin stöð sem vinnur neysluvatn úr sjó. Það hefur semsagt ýmislegt horft til framfara, lífskjörin hér hafa batnað ótrúlega mikið, en vatnsbúskapur er alltaf mjög erfiður.

Einn kostur við rafmagnsleysið var hinn stjörnubjarti himinn sem hvelfdist yfir okkur. Ég er ekkert sérlega glúrinn að þekkja stjörnumerki, en app sem nefnist Skyview er mjög hjálplegt. Og þarna kemst maður náttúrlega nær forn-Grikkjum en með ýmsum öðrum hætti; það voru jú þeir sem greindu stjörnur, plánetur og stjörnumerki. Þetta hefur verið bíó þeirra tíma. Fyrirbæri á himinfestingunni koma fyrir strax í Hómer, Stóri-Björn, Hjarðmaðurinn, Siríus, Orion, Regnstirnið og Sjöstirnið.

 

1image001_fs

 

En við höfum semsagt náð að horfa á leiki með aðstoð ljósavéla – eins og það var kallað þegar ég var í sveit í Dölunum sem strákur og rafmagnslínur náðu ekki enn inn dalinn þar sem ég var.

 

13532788_10154296689693894_706342499282103120_n

 

Myndin er úr hinni furðulegu vítakeppni Þjóðverja og Ítala. Einkennilegt var að sjá nokkrar af helstu stórstjörnum fótboltans klúðra vítaspyrnum eins og þeir væru algjörir byrjendur. Þýskur vinur minn sagði að fótboltamenn eins og þessir hefðu svo há laun að ekki þyrfti að vorkenna þeim. Þegar þeir dyttu út tækju við lystisnekkjur og lúxushótel.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“