fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

Var ekki einu sinni hér í sveit prestur, að nafni síra Ketill?

Egill Helgason
Þriðjudaginn 7. júní 2016 10:03

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjartur er að gefa út Sögu Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson í kilju. Ég var með dálitla dellu fyrir þessari bók þegar ég var strákur. Hún var reyndar það eina sem ég las eftir Gunnar þangað til kom að Aðventu mörgu árum síðar. Ég reyndi við Fjallkirkjuna en komst ekki í gegnum hana – það hjálpaði ekki að kaflar úr henni voru í lesbók sem var notuð í barnaskóla. Yfirleitt vildi maður ekkert vita af textum sem voru í slíkum bókum.

En Borgarættin var djúsí róman með miklum og ýktum örlögum. Minnistæðastur er hræsnandi klerkurinn Ketill Örlygsson sem tekur konuna af hinum góða bróður sínum Ormari, ber rangar sakir á föður sinn, héraðshöfðingjann Örlyg, en hrökklast loks burt eftir að faðir hans gengur upp að honum í prédíkunarstólnum og fordæmir hann, en hnígur síðan niður sjálfur:

„Bölvaður sért þú, þar til sál þín geymir ekki annað en iðrun og kærleik“, en svo segir ennfremur að Ketill hafi staðið uppi „hvers manns andstyggð og athlægi, ekki einu sinni hundur vildi líta við honum“.

Ketill verður síðan förumaðurinn Gestur eineygði sem fer um landið og vinnur góðverk sem sögur fara af. Hann snýr heim, veikur og dauðvona, og áræðir að spyrja:

„Var ekki einu sinni hér í sveit prestur, að nafni síra Ketill?“ Honum er sagt að þetta nafn megi ekki nefna í sveitinni, en að lokum ná þeir saman hann og Ormar bróðir hans.

„Þessi gamli maður, þessi bæklaði beiningakarl i tötrum var bróðir hans, presturinn fyrrverandi, — prestdjöfullinn . . . Og allt i einu opnuðust augu hans: Hann sá og skynjaði hefnd og fyrirgefning lifsins sjálfs, lífsins eigin vægðarlausu refsing á þeim, sem gerzt hafa brotlegir við lög þess. Hatur hans eyddist í einu vetfangi.“

Gunnar var ungur maður þegar hann skrifaði Borgarættina, það má segja að hún sé melódrama, en hún varð afar vinsæl. Hvað varðar frásagnartækni er ýmislegt frekar ófullburða.  Gunnar varð metsöluhöfundur í Þýskalandi og Danmörku. Verkið kom út árin 1912 til 1914, en á íslensku 1915. Gömul kona frá Danmörku sem ég þekkti eitt sinn sagði mér að hún hefði fengið Borgarættina í fermingargjöf. Svo var víst um fleiri börn.

Leið sjálfs míns til þessa verks lá í gegnum kvikmynd sem var gerð 1919. Ég sá hana í Nýja bíói oftar en einu sinni, stalst einhvern tíma einn á  hana þegar mér leiddist á samkomu í KFUM.  Það var held ég í annað skiptið sem ég sá hana. Ég sé á vef Kvikmyndamiðstöðar að þetta hefur verið árið 1969. Það er merkilegt til þess að hugsa að undir lok sjöunda áratugarins hafi íslensk bíó ennþá verið að sýna gamlar þöglar myndir – og að maður hafi þá enn verið svo móttækilegur fyrir myndmálinu að atriði úr þeim eru eins og greipt í vitundina.

 

borgartt2

Úr kvikmyndinni Sögu Borgarættarinnar. Hún var gerð af Dönum en tekin á Íslandi og frumsýnd 1921. Daninn Gunnar Sommerfelt leikstýrði myndinni og lék Ketil/Gest, en hinn ástsæli listamaður Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, lék Ormar. Ég finn ekkert úr myndinni á YouTube, en sé að henni er streymt þar einstöku sinnum. Gunnar Sommerfelt gerði síðan mynd sem var byggð á sögu Hamsuns, Gróðri jarðar, en svo virðist hann hafa hætt í kvikmyndunum.

Gerð myndarinnar þótti stórviðburður á Íslandi sumarið 1919. Það er skrítið til þess að hugsa að einhvers konar kvikmyndaver var sett upp á Amtmannstúninu í Reykjavík, þetta er alveg niðri í Miðbæ, þar sem nú stendur kirkja Aðventista við Ingólfsstræti. Þar var sett upp leikmynd, baðstofa og kirkja, en annars var tekið víða um land, við Gullfoss og Geysi og á Keldum á Rangárvöllum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“