fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

Sigfús í Bankastræti

Egill Helgason
Sunnudaginn 22. maí 2016 09:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég var að alast upp var Reykjavík meira þorp en hún er nú. Það var til dæmis ekki um auðugan garð að gresja í kaffihúsamenningunni. Ég hef líklega sest í fyrsta sinn inn á kaffihús og pantað mér kaffibolla síðla árs 1975, auðvitað á Mokka.

Þá var það eiginlega eini staðurinn sem kom til greina að fara á, nema maður kíkti einstöku sinnum á Café Tröð sem var á efri hæðinni þar sem Eymundsson er í Austurstræti. Hressingarskálinn seldi stórar rjómatertur og viðmótið gagnvart ungu fóki þar var ekki skemmtilegt – þangað fór maður aldrei inn.

Á þessum tíma var gríðarlegt mannval á Mokka og maður fór fljótt að kannast við frægustu fastagestina: Dag Sigurðarson skáld, Jón Gunnar Árnason myndhöggvara, Andrés Kolbeinsson óbóleikara, Leif Þórarinsson tónskáld, Guðrúnu Pétursdóttur líffræðing, Gylfa Gíslason myndlistarmann, Karl Kvaran málara, Thor Vilhjálmsson, Þorstein frá Hamri – og Sigfús Daðason.

Sigfús sat ávallt við eitt af litlu borðunum, vinstra megin þegar maður gekk inn, drakk kaffi en í munnviki hans danglaði sígaretta. Oft var hann einn síns liðs. Síðar hætti hann að reykja að læknisráði, ég man að Dagur gerði mikið grín að honum fyrir það.

Maður bar óttablandna virðingu fyrir Sigfúsi. Hann virkaði dulur og kveðskapurinn sem maður hafði lesið eftir hann var djúpur og fullur af lærdómi og torræðri visku. Um tíma skildi ég varla við mig kvæðið eftir Sigfús sem upphaflega hét Sakamaður og byrjar svona –  þetta höfðaði afar sterkt til unglingsins sem ég var, existensíalisminn var þá enn á kreiki, Sigfús var reyndar kornungur sjálfur þegar hann orti þetta:

Að baki djúpt inni í húsinu heyrirðu skellast
hurðir og stóst fyrir utan og fannst að margra
sjónir beindust að þér, að allra augu
einan þig sáu um haust og þótti líkt og
að áliðnum degi rísirðu upp og út til
annarra gangir, í svefni, líkt og að aka
einn í vagni blundandi að brimaðri strönd
í brimi á nóttu: nótt í tunglskini í brimi
og eins og síðar um langa daga i landi
lágu rigndu og fölnuðu þar sem allt er
kyrrt gangirðu einn í angist…

Ein lítil saga er af virðingunni sem var borin fyrir Sigfúsi, en þarna tekur hún á sig hlægilega mynd. Það var í kringum 1980 að haldin var í Félagsstofnun stúdenta samkoma til heiðurs þýska skáldinu Bertolt Brecht.

Sigfús hafði verið fenginn til að flytja smá erindi um Brecht og talaði fyrstur. Hann var með ráma rödd og rómur hans var heldur lágur alla tíð. Þegar Sigfús byrjaði að tala kom í ljós að hljóðneminn var ekki almennilega tengdur. Það heyrðist lítið í honum. En virðingin var svo mikil, og kurteisin gagnvart skáldinu, að enginn úr fjölmennum áheyrendahópi áræddi að láta vita. Sigfús talaði nokkuð lengi og varla neinn heyrði hvað hann sagði.

Þegar maður kynntist Sigfúsi var hann einstaklega ljúfur og almennilegur og gaf sér tíma til að spjalla við mann. Óneitanlega varð maður dálítið upp með sér af því.

Hér er skemmtileg mynd af Sigfúsi Daðasyni þar sem hann gengur niður Bankastrætið, framhjá tóbaksbúðinni Bristol – og er enn að reykja sígarettur, gætu verið franskar Gauloises. Myndina tók Jóhanna Ólafsdóttir – og gaf mér leyfi til að nota hana.

 

13087187_1681239895474224_2661202574646174383_o

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“