fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

Okkur öllum

Egill Helgason
Laugardaginn 14. maí 2016 17:36

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hef lengi verið með dálítið samviskubit vegna þess að mig grunar að ég hafi átt nokkurn þátt í að valda íslenska efnahagshruninu.

Árið 2007 stækkaði ég nefnilega húsnæðið sem ég bjó í um heilan fjórðung. Flutti úr 80 fermetra íbúð í 100 fermetra íbúð. Ég notaði reyndar ennþá bíl sem var frá árinu 1994 og átti eftir að aka honum í mörg ár enn.

En ég keypti mér flatskjá.

Eftir hrunið kom Björgólfur Guðmundsson með þá skörpu greiningu að við værum öll á okkar hátt samsek – við hefðum keypt okkur flatskjái. Þá var reyndar orðið erfitt að fá túbusjónvörp.

Björgólfur, sem hafði fyrir vinarsakir fengið banka í sinn hlut í einkavæðingu nokkrum árum áður, varð síðar gjaldþrota upp á 85 milljarða króna.

Fyrir þá fjárhæð hefði verið hægt að kaupa 850 þúsund flatskjái. Það eru líklega um fimm tæki á hvert heimili ef stuðst er við gögn Hagstofunnar.

Árið 2007 heyrði ég fjármálaráðherra þáverandi fara með fleyg orð. „Drengir, sjáið þið ekki veisluna!“ sagði hann.

Þá fékk ég samviskubit yfir því að vera ekki með, mér fannst ég vera að missa af einhverju. Ég fór í verðbréfasjóð við Suðurlandsbraut, fyllti út þartilgert eyðublað, var vísað inn í sérstakt viðtalsherbergi þar sem ég spurði hvort þeir gætu ávaxtað smá sparifé sem ég átti.

Mér var tjáð að ég ætti ekki nógu mikla peninga til að fá að vera með í sjóðnum. Ég lét mig hverfa við svo búið og reyndi ekki aftur.

Nokkrum vikum síðar fréttist að forstjóri verðbréfasjóðsins hefði verið handtekinn fyrir svik, þetta var í apríl 2007. Hann var einna fyrstur.

Fáum árum heyrði ég síðar einn trúnaðarmann ríkisstjórnarinnar sem þá var, Svavar Gestsson, lýsa því yfir að við Íslendingar værum í raun að bera burt „syndir heimsins“ vegna efnahagshrunsins. Við vorum semsagt að deila með okkur einhvers konar hópsekt.

Er furða þótt maður hafi verði hugsi? Á þeim árum var ekki hægt að fá nokkurn mann til að viðurkenna að hann hefði gert neitt rangt eða misjafn fyrir hrun. Það var meira að segja óhugsandi að neinn játaði á sig mistök, hversu smá sem þau voru.

Og svoleiðis er það reyndar enn. Enn hefur enginn fundist sem kannast við að bera nokkra ábyrgð.

Í dag les ég svo að forsetaframbjóðandinn Davíð Oddsson telji að hrunið hafi verið „okkur öllum“ að kenna.

Okkur öllum. Böndin berast semsagt enn einu sinni að okkur. Okkur öllum. Hann bætti meira að segja við „nær og fjær“. Það á enginn að sleppa.

Ég fór aðeins að spá í hvað það felur í sér. Fólkið til sjávar og sveita, fólkið í þéttbýli og dreifbýli, fólkið í Breiðholti og 101 og á Akureyri. Gamla fólkið, unga fólkið, miðaldra fólkið, launafólkið, öryrkjar, hjúkrunarfólk, leikskólakennarar, bændur, háskólafólk og hótelstarfsmenn.

Allir er nefnilega mjög stórt mengi. Nógu stórt til að þetta verður algjörlega merkingarlaust. Við getum til dæmis alveg látið vera að reikna gjaldþrot Seðlabankans yfir í flatskjái, en þar myndi talan skipta milljónum tækja. Hefði verið hægt að fylla hvert herbergi í landinu með þeim.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 klukkutímum
Okkur öllum

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu

Flugfélög: Icelandair stundvísast allra stærri flugfélaga í Evrópu
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum

Lífskjör: Kaupmáttur á Íslandi mun minni en hjá nágrannaþjóðum – þriðjungi meiri í Færeyjum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi

Guðlaugur Þór hefur miklar efasemdir um fyrirhugaða þéttingu byggðar í Grafarvogi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“