Hafa atburðir síðustu vikna slæm áhrif á álit Íslands erlendis?
Það er ekki víst. Ísland hefur verið í heimsfréttum í þriðja skiptið á innan við áratug. Fyrst var það hrunið, svo var það Eyjafjallajökull, nú aflandsmál.
Á þessum tíma hefur ferðamannastraumur til Íslands vaxið í stökkum. Virðist mega búast við sprengingu í sumar. Spurning við ráðum yfirleitt við hana.
Erlendis er útbreidd skoðun að Íslendingar hafi tekið manna best á óförum fjármálakerfisins 2008. Þeir hafi rekið ríkisstjórn frá völdum, réttað yfir bankamönnum – og meira að segja forsætisráðherra – og ekki látið almenning taka á sig bankaskuldir.
Þetta er ekki allt nákvæmt, fjarri því, en á ferðalögum fær maður klapp á bakið fyrir framgöngu Íslendinga eftir hrun. Í mótmælum á Spáni og í Grikklandi hafa meira að segja sést íslenskir fánar.
Nú kemur upp hið alþjóðlega hneyksli varðandi Panamaskjölin? Fáum dögum eftir birtingu þeirra eru Íslendingar búnir að setja af forsætisráðherra sem tengist þeim.
Er þetta endilega vont fyrir ímynd þjóðarinnar í útlöndum?