fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Tvö sterk forsetaefni, annað komið fram, hitt að íhuga

Egill Helgason
Sunnudaginn 10. apríl 2016 22:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

bad1e656d9-380x230_oMeð Andra Snæ Magnasyni er kominn fram forsetaframbjóðandi sem hefur sterka tilhöfðun út á vinstri vænginn, getur fengið fylgi á miðjunni – en stendur mun veikar hægra megin.

Andri Snær hefur einkum verið þekktur fyrir náttúruverndarbaráttu sína og hún mun sjálfsagt vera leiðarstefið í framboði hans.

Náttúruvernd hefur auðvitað víða skírskotun. Andri Snær er fyrsti frambjóðandinn sem stígur fram og er líklegur til að fá fjöldafylgi. Hann útilokar líklega framboð nokkurra einstaklinga af vinstri væng sem hafa verið að hugsa málið. En það er öruggt að andstaðan gegn honum verður talsverð.

Það er svo spurning hvort hann er 20 prósenta maður, 30 prósenta eða meira? Hvað þarf mikið fylgi til að vinna forsetakosningarnar í ár? Það má jafnvel pæla í hver verði kjörsóknin og svo hver verði aldursamsetning þeirra sem mæta á kjörstað?

Annað nafn hefur verið mjög í umræðunni nú um helgina. Það er Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur – þetta gerist eftir glæsilega frammistöðu hans í sjónvarpi í síðustu viku þar sem má segja að hann hafi sjarmerað áhorfendur með þekkingu sinni og kímnigáfu.

Guðni er sérfræðingur í nútímasögu Íslands, hann er afar fróður um forsetaembættið og þá sem hafa gegnt því. Þetta virkar eins og prýðileg menntun til að vera hæfur í forsetakjör.

Guðni hefur ekki verið bendlaður við neinn stjórnmálaflokk eða stjórnmálaafl – sem frambjóðandi gæti hann höfðað til fólks sem er víða á hinu pólitíska rófi. Hann er varla maður sem harðar deilur myndu standa um – gæti jafnvel verið sameinandi forsetaefni. Guðni hefur þó haft býsna sterkar skoðanir á stjórnarskrármálum – hann hefur talað um að stjórnarskráin sem var samþykkt 1944 hafi verið til bráðabirgða.

Það er þó alveg óvíst hvort Guðni hefur nokkurn áhuga á framboði, hann segist ætla að „íhuga að íhuga“.

Svo má spyrja hvort hægrið á Íslandi ætli ekki að tefla fram neinum frambjóðenda. Það er stöðugur orðrómur um að Davíð Oddsson fari fram, en kannski er það ekki meira en það – orðrómur?

 

5e818e421d-415x230_o

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?