fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

„Ég hef heyrt þúsundir mótmæla stefnu minni“

Egill Helgason
Laugardaginn 9. apríl 2016 08:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er merkilegt að sjá Vinstri græn rjúka upp í skoðanakönnunum síðustu daga. Maður getur náttúrlega ekki fullyrt um neitt slíkt nema það sé kannað – en getur verið að eitthvað af fylgi sé að fara frá Framsókn yfir á VG? VG var sumpart í sömu aðstöðu í kosningunum 2009 og Framsókn 2013. Fylgi flokksins rauk upp í aðdraganda kosninga – rétt eins og Framsóknarflokksins fjórum árum síðar.

Eins og staðan er í dag væri þannig líklegt að aðalflokkarnir í ríkisstjórn væru Píratar og VG.

Samfylkingin er hins vegar alveg föst í sínu lágmarksfylgi. Það virkar nánast eins og kjósendur séu  endanlega búnir að gefa flokkinn upp á bátinn, að hann sé kominn í ruslflokkinn.

Björt framtíð sem á sínum tíma var klofningur úr Samfylkingu og er nálægt henni málefnalega haggast varla heldur.

Formannskjör er auðvitað framundan hjá Samfylkingunni í júní og það verður að segjast eins og er að enginn frambjóðendanna virðist líklegur til að skipta sköpum fyrir flokkinn. Ef fylgið fer ekki að aukast við aðstæður eins og eru nú, er hann varla á vetur setjandi.

Það verður samt að segja eins og er að af foringjum stjórnarandstöðunnar þá er það Árni Páll Árnason sem hefur staðið sig hvað best í róti undanfarinna daga. Greiningar hans hafa verið skarpari en hinna.

Við vantraustsumræðuna í gær hélt Árni Páll ræðu. Í henni kvað við einlægari og auðmjúkari tón en maður heyrir oftast hjá stjórnmálamönnum:

Ég ætlaði að flytja hér hefðbundna framsöguræðu með vantrausti: Tala um ríkisstjórn sem hefur brugðist, nýja útgáfu hennar sem er andvana fædd og þorir ekki í kosningar. Eins og allir stjórnarandstöðuleiðtogar á öllum tímum hafa gert við slíkar aðstæður.

En ég get ekki meir og held að tímarnir krefjist af okkur nýrrar alvöru. Eftir harkaleg orðaskipti okkar fjármálaráðherra hér í gær fór ég heim og hugsaði.

Ég skil þau harkalegu orð sem fjármálaráðherra lét falla í minn garð í málsvörn sinni hér í gær. Ég skil, vegna þess að ég hef sjálfur setið á þessum ráðherrabekk og að mér hefur líka verið sótt. Ég hef setið og heyrt þúsundir mótmæla stefnu minni og þeirrar ríkisstjórnar sem ég var hluti af. Og ég hef varist af hörku og verið algerlega sannfærður um að ég vissi best og að leiðin sem við hefðum valið væri sú eina rétta. Allir hlytu á endanum að sjá að ég hefði rétt fyrir mér. En ég get ekki horft framhjá því að afleiðingin af þeirri afstöðu varð stærsta pólitíska tap Íslandssögunnar.

Vantraust á nýja ríkisstjórn er hér til umræðu. Fyrir því eru efnisrök. En fyrir liggur samþykkt vantraust þjóðarinnar á íslenska pólitík. Það getur enginn neitað því. Fjármálaráðherra sagði að stjórnarandstaðan væri „líka í rusli“ og við höfum vissulega öll beðið gríðarlegt tjón af stjórnmálum sem gera lítið úr fólki, afneita staðreyndum, upphefja persónupólitík og breyta allri alvöru í þras og garg.

Um allan heim er fólk að snúa baki við stjórnmálum sem það upplifir að einkennist af alvöruleysi og eiginhagsmunum. Við erum á sama báti. Við getum ekki haldið áfram bardaganum á vettvangi stjórnmálanna á þann veg að öllu góðu fólki ofbjóði það sem það heyrir og sér. Við verðum saman að bjarga stjórnmálunum, til þess að verða að sem mestu gagni.

 

En fyrr í ræðunni sagði hann og vísaði til mótmælanna á mánudag:

 

Ekki bara voru þau fjölmennari en dæmi eru um frá hruni, heldur voru þau líka friðsæl og kærleiksrík. Þar voru ekki bara kjósendur stjórnarandstöðunnar: Maður skynjaði að þarna væri saman kominn þverskurður þjóðarinnar.
Kjósendur allra flokka, fólk með ólíkar lífsskoðanir, sumir betur stæðir og aðrir ver. Það sem sameinaði alla var sú krafa að hlustað yrði á ákall þjóðarinnar um siðbót í stjórnmálum og sú von að það væri – þrátt fyrir allt – mögulegt að ná henni fram.

Þetta minnti mig á dagana eftir hrun: Þegar ókunnugt fólk úti á götu með áhyggjuhrukkur á enni lagði lykkju á leið sína til að óska óbreyttum stjórnarþingmanni alls góðs.

Þegar fólk batt enn von við stjórnmálin.

Sú von sem síðan hefur horfið. Á einhverjum tímapunkti, sem erfitt er að ákvarða, fékk fólk skömm á allri pólitík og í skugga þeirrar skammar stöndum við í þessum sal enn þann dag í dag. Okkur hefur ekki tekist að endurvekja trúnaðinn við fólkið sem einu sinni lagði lykkju á leið sína til að hvetja og styðja. Leiðin til þess að endurvekja þann trúnað hlýtur að felast í því að tala af alvöru um raunveruleg áhyggjuefni fólks og segja ávallt satt.

Reynsla síðustu missera færir okkur heim sanninn um mikilvægi þess að breyta í grundvallaratriðum efnahagslegum leikreglum landsins. Um áratugaskeið hefur íslenskt efnahagslíf einkennst af því að vel tengdir viðskiptamenn hafa auðgast vegna þess að stjórnmálamenn hafa tryggt þeim aðgang að takmarkaðri aðstöðu eða ríkiseignum.

Í skjóli þeirrar skekkju hefur vaxið og dafnað sérstök tegund kapítalista – þeirra sem nærast á annarra manna fé og leggja meiri áherslu á taumlausan arð í eigin vasa en raunverulega sköpun verðmæta sem nýtast samfélaginu öllu. Það er þessi tegund sem flykktist í skattaskjól til að forðast að leggja að mörkum eftir efnum.

Á síðustu misserum hafa Borgunarhneykslið og óheftar arðgreiðslur tryggingafélaga á kostnað almennings sýnt að sumir hafa ekkert lært – og því miður engu gleymt. Þessu verður nú að linna.

 

mynd11

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?