Sigurður Ingi Jóhannsson hefur líklega seint gert ráð fyrir að verða forsætisráðherra. Hann er ekki hrífandi stjórnmálamaður eða mælskur, ekki maður sem venjulega er teflt fram í fremstu víglínu. Þetta minnir dálítið á það sem gerðist í stjórnarkreppu 1950 þegar Framsóknarmaður að nafni Steingrímur Steinþórsson var dubbaður upp í að verða forsætisráðherra nokkuð óvænt. Hann sat reyndar í þrjú ár.
Sigurður Ingi getur ekki búist við að sitja svo lengi því það verður kosið næsta haust, skilst manni. Ef fer sem horfir verður Framsóknarflokkurinn ekki í ríkisstjórn eftir þær. Hann er kominn niður í 7 prósent í skoðanakönnunum og viðspyrnu er varla að finna. Veikluð stjórn sem situr í hálft ár getur ekki gert mikið til að vinna hylli kjósenda.
Samt heyrðist manni á Bjarna Benediktssyni í sjónvarpi nú rétt áðan að þeir ætli að skilyrða tímasetningu kosninga að einhverju leyti við framgang þingmála. Stjórnarandstaðan fái kosningar ef hún hleypir í gegn málum ríkisstjórnarinnar. Það getur orðið erfitt og óvinsælt.
Bjarni virkaði uppstökkur á blaðamannafundi áðan, Sigurður Ingi var hins vegar rólegur.
— — —
Það er spurning hvort Framsóknarflokkurinn ætlar í kosningar með Sigmund Davíð sem formann. Foringjadýrkunin gagnvart honum hefur verið nánast taumlaus – hún linaðist ekki fyrr en þegar 22 þúsund mótmælendur stóðu fyrir utan Alþingishúsið.
En Framsóknarmenn hljóta að efast um hann eftir framgönguna síðustu vikur. Líklega hefði verið best fyrir flokkinn ef hann hefði sagt af sér strax og kom upp ávæningur um þessi Tortólamál. Vörn hans var misráðin frá fyrsta degi, illa hönnuð og hefur skaðað marga aðra af þingmönnum flokksins verulega.
Það sýnir glöggt hve Sjálfstæðisflokkurinn er veikur að hann skuli sætta sig við að sitja í stjórn undir varaformanni Framsóknarflokksins. En aflandseyjamál eru svo skeinuhætt fyrir Bjarna Benediktsson að hann getur varla gert neinar kröfur. Flokksmenn hljóta að vera hugsi yfir því að flokkurinn skuli standa svo veikt undir Bjarna – það þyrfti ekki að koma á óvart þótt hann væri á útleið úr pólitík. Traust til hans mælist aðeins 22 prósent í nýrri skoðanakönnun MMR.
Það er viðbúið að mikil reiði verði innan Sjálfstæðisflokksins með þessa niðurstöðu. „Stórslysamynd í beinni útsendingu,“ segir ungur Sjálfstæðismaður á vefnum.
— — —
Ein breyta í kosningunum er áframhaldandi birting Panamaskjalanna. Þar getur ýmislegt komið upp úr dúrnum. Segjum til dæmis að komi í ljós að kvótahafar og stórútgerðarmenn, sem sækja í sameiginlega auðlind þjóðarinnar og fara með hana eins og eign sína, eigi fjármuni á aflandseyjum.
Miðað við reiðina sem er í samfélaginu gæti þetta hugsanlega gert út af við kvótakerfið í núverandi mynd. Það hefur heldur aldrei notið raunverulegs stuðnings nema minnihluta þjóðarinnar. Þetta myndi líka skaða Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sem hafa staðið dyggan vörð um kvótakerfið og passað upp á að kvótahafar þurfi ekki að borga nema lítilræði fyrir afnotin.
— — —
Píratar eru í ótrúlegri stöðu. Fylgi þeirra mælist nú yfir 40 prósent í Gallup könnun. Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn á mektarárum sínum. Pírötum er viss vandi á höndum að raða á framboðslista. Kosningarnar gætu skilað þeim 25 þingmönnum, það þarf auðvitað að vera frambærilegt fólk sem getur sýnt að það er hæft til að stjórna landinu. Þolinmæðin er ekki mikil í samfélaginu.
Píratarnir þurfa að geta bægt frá sér tækifærissinnum, lukkuriddurum og eins máls fólki – og stefnan þarf að vera klár svo ekki komi fljótt klofningur í liðið.
— — —
Þegar kosningar eru framundan blasir við hversu illa flokkarnir sem sátu í síðustu ríkisstjórn hafa notað tímann. Það eru þrjú ár síðan stjórn Jóhönnu og Steingríms beið sitt sögulega afhroð og í raun hefur ekkert gerst innan Samfylkingarinnar og Vinstri grænna síðan. Flokkarnir hafa ekkert byggt sig upp, þeir hafa ekki endurnýjað hugmyndagrundvöll sinn, ekki kallað nýtt fólk til liðs við sig.
Samfylkingin er ekki einu sinni með formann, þ.e.a.s. formannskjör er fyrirhugað í júní. Árni Páll Árnason hefur verið mjög áberandi síðustu daga, hann hefur hoppað milli viðtala, varla misst af neinum hljóðnema, hann hefur sumpart virkað öflugri en hinir foringjarnir í stjórnarandstöðunni. Árni hefur verið sterkari í þessu ástandi en t.d. talsmenn Pírata og Bjartrar framtíðar. Traustið til Árna Páls er mjög lítið, einungis 15 prósent samkvæmt könnun MMR frá því í dag (aðeins Sigmundur er lægri með 10 prósent). Eina von Árna til að vera formaður áfram er hvað mótframbjóðendurnir eru veikir. Samfylkingin er líka með gamlan og staðnaðan þingflokk – það er spurning hvort næst endurnýjun fyrir kosningar í haust.
Staða Vinstri grænna er mjög sérkennileg. Flokkurinn er með Katrínu Jakobsdóttur, þann stjórnmálamann íslenskan sem nýtur mests trausts í forystu – 59 prósent samkvæmt könnun MMR, meira en Ólafur Ragnar. Miðað við þetta ætti fylgi flokksins náttúrlega að vera miklu meira og Katrín í raun að vera að keppa um forsætisráðherrastólinn. En kjósendur virðast í mjög takmörkuðum mæli hafa lyst á afganginum af flokki Katrínar. Spurning er til dæmis hvort Steingrímur og Ögmundur ætla að sækjast eftir kjöri í enn eitt skipti.
— — —
Miðað við stöðuna núna er líklegast að stjórnarandstöðuflokkarnir, þó kannski ekki allir, þeirra taki við stjórnartaumunum í haust. Það yrðu hrein stjórnarskipti sem er mjög fátítt á Íslandi. Píratar gætu orðið svo sterkir að þeir eigi val um einn eða tvo flokka til að starfa með – og í raun ráðið ferðinni. Slíkt er líkast til eina vonin fyrir Samfylkingu eða VG til að komast í ríkisstjórn. Ef vel tekst til með framboð Viðreisnar gæti sá flokkur komið til greina líka.
Til Píratanna yrðu gerðar feikilegar kröfur um að kveða niður spillingu, siðvæðingu, stjórnkerfisbreytingar, gegnsæi – til að standa undir slíku þurfa menn að vera vel undirbúnir, enda er víst að andstaðan, ekki síst frá hagsmunaöflum, verði hörð.