Þetta eru einhverjar furðulegustu framkvæmdir í Reykjavík um þessar mundir. Holan sem stækkar og dýpkar á Laugavegi 4-6.
Þeir grafa stöðugt dýpra í jörðina. Mín kenning er sú að þeir ætli að moka alla leið til Kína og selja lunda þangað beint.
Reyndar gætu þeir líka fengið lunda beint úr verksmiðjunni upp um holuna.
Það leikur allt á reiðiskjálfi í nágrenninu vegna framkvæmdanna, þær hafa tekið miklu lengri tíma en sagt var og voru illa kynntar í byrjun.
Forsagan er einhvern veginn, svona, skilst manni.
„Fjárfestir“ selur borginni gömul timburhús við Laugaveg sem er talin nauðsyn að vernda fyrir stóra fjárhæð.
Borgin gerir húsin upp fyrir mikla peninga.
„Fjárfestirinn“ kaupir uppgerð húsin fyrir miklu lægri fjárhæð en hann seldi þau á í upphafi.
Og fær í kaupbæti að grafa tvöfaldan kjallara fyrir neðan húsin og út í öll lóðarmörk.
Því kjallarinn virðist eiga að vera tvær hæðir. Maður óttast helst að þetta verði tíska í borginni, að sundurgrafa allt í allsherjar kjallaravæðingu.