Það er ekki eins og aflandsfélög séu eitthvert nýnæmi á Íslandi. Þau hafa verið notuð óspart af einstaklingum og fyrirtækjum. Íslensk útgerðarfyrirtæki nota til dæmis aflandsfélög – og það hefur oft verið bent á að útgerðin vill fremur nota sterka erlenda gjaldmiðla en íslensku krónuna. Forsætisráðherra hefur verið legið það á hálsi, meðal annars af Þorsteini Pálssyni.
Þannig að fólk þarf ekki að vera rosa undrandi ef kemur fram langur listi yfir Íslendinga sem eiga fé í aflandsfélögum. Þetta er ekki einu sinni ólöglegt, ekki nema félögin hafi verið notuð til beinna skattsvika („skattaundanskot“ þurfa ekki einu sinni að vera ólögleg). Með hinni miklu fjármálavæðingu í stjórnartíð Davíðs Oddssonar fóru Íslendingar á fullt í að nota skattaparadísir og bankarnir reru undir og hjálpuðu til. Peningar fóru ekki bara til Tortóla og Bresku jómfrúreyja, heldur líka á aflandsstaði eins Lúxemborg og Kýpur og jafnvel alla leið til Panama.
Indriði G. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, var í fróðlegu viðtali um aflandsfélagavæðingu í Ríkisútvarpinu fyrr í þessum mánuði. Hann sagði að Íslendingar hefðu gengið mjög langt í þessu efni, bæði fyrirtæki og fjársterkir einstaklingar. Íslenskir bankar voru í óða önn að setja upp svona félög fyrir efnafólk. Hann sagði ennfremur að skattalögum hefði verið breytt þannig að í raun var opnað fyrir vaxandi aflandsstarfsemi.
Það má segja að við höfum byrjað að taka þátt í þessu uppúr 1995, þegar fjármagnshöft voru afnumin að mestu leyti. Þá fyrst var þetta mögulegt í stærri stíl. Síðan fór þetta vaxandi,“ sagði Indriði. „Og með einkavæðingu bankanna og þeirri samkeppni óx þetta hratt. Stjórnvöld hérna voru lengi vel, og eru kannski enn að einhverju leyti, ekki mjög virk í að vinna á móti þessu. Auk þess sem íslenskar reglur í skattamálum voru þessu mjög hagstæðar.“
„Það var og er mjög auðvelt að færa eignarhald og þess vegna tekjur héðan og til útlanda,“ útskýrði Indriði. „Við höfum mjög rúmar reglur um að fresta megi skattlagningu sölutekna með því að kaupa hlutabréf, m.a. í erlendum félögum, og stofna félög erlendis. Engin fyrirstaða var í raun fyrir því að færa söluhagnað og hagnað af hlutabréfum sem myndast innanlands til útlanda og stofna svona félög.“
Það þarf semsagt ekki að vera stórfrétt þótt greint sé frá því að Íslendingar eigi fé í aflandsfélögum, eins og gert er á Eyjunni í dag. Við vitum að aðilar í viðskipta- og atvinnulífi hafa notað þetta óspart – jú, við getum spurt hver sé þjóðhollustan í þessu? Vilja þeir deila kjörum með íslenskum almenningi eða ekki? Um það er í raun ekki oft spurt á tíma hnattvæðingar, en þó má benda á að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum snúast að miklu leyti um hnattvæðingu þegar öllu er á botninn hvolft, um þjóðhollustu auðmagnsins.
Það er sagt að rannsóknarblaðamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson hafi gögn um Íslendinga sem eiga fé á aflandsstöðum. Umræðan um Tortólafé Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og eiginkonu hans hófst þegar Jóhannes sendi þeim fyrirspurn um málið. Þau svöruðu áður en fyrirspurn hans varð opinber, til að vera fyrri til. En það hefur furðu lítið heyrst frá Jóhannesi sjálfum, hvaða gögn er hann með, ætlar hann að birta þau, og þá hvenær?
Frétt Eyjunnar í morgun segir í raun lítið sem getur talist vera haldfast en það er margt gefið í skyn. Það sárvantar meiri upplýsingar. Þarna er talað um að „áhrifamenn í Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu eigi fé í skattaskjólum“. Um Sjálfstæðisflokkinn segir að nöfn „forystumanna innan flokksins, þar á meðal alþingismanna“ séu á umræddum listum. Síðan er nefnt að „áhrifamaður innan Samfylkingarinnar eigi félag sem vistað er í skattaskjóli“.
Fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson eru þetta kannski ágætis fréttir, svona í bili. Það liggja semsagt fleiri en hann undir grun. En það breytir samt ekki málinu í neinum grundvallaratriðum. Ráðherra er eitt – að maður tali ekki um forsætisráðherra –, alþingismaður er annað og „áhrifamaður“ er svo allt annað. Allir flokkar hafa sína áhrifamenn, reyndar misjafnlega geðslega, sem eru oft fremur að gæta sérhagsmuna en þjóðarhags. Hugsanlega er það ein helsta tragedía stjórnmálaflokkanna hversu illa þeim gengur að bíta af sér áhrifamennina.
Staða Sigmundar verður ekki önnur við að aðrir eigi líka svona félög. Það kann hins vegar að breyta því hvernig verður tekið á málinu á hinum pólitíska vettvangi. Þögn Sjálfstæðisflokksins í málinu hefur eiginlega verið nístandi. Ef alvöru forystumenn innan Sjálfstæðisflokksins eru flæktir í Tortólabisness kann það að hafa áhrif á það hvernig flokkurinn tekur á málinu. Þess vegna er eiginlega nauðsynlegt fyrir flokkinn að gögnin komi fram sem fyrst.
Það er heldur ekki ólíklegt að þessi frétt muni valda vissum pirringi innan Sjálfstæðisflokksins – flokksforystunni er eiginlega stillt upp við vegg. Sjálfstæðisflokkurinn hefur reyndar fleira til að vera pirraður yfir. Það er áberandi í málsvörn Sigmundar Davíðs að hann eignar sjálfum sér allan árangur í viðskiptunum við hina erlendu kröfuhafa. Ég gerði þetta allt sjálfur, er viðkvæðið. En þarna komu auðvitað fleiri að, málið sjálft var raunar á forræði Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og svo var það í höndum Seðlabanka Más Guðmundssonar – og reyndar var líka lagður ákveðinn grunnur á tíma síðustu ríkisstjórnar.
— — —
En meðan þessar upplýsingar birtast ekki er hætt við að fari í gang leikur þar sem fingrum er bent í allar áttir. Í athugasemdum á Eyjunni eru uppi vangaveltur um að „áhrifamaðurinn“ úr Samfylkingunni sé Vilhjálmur Þorsteinsson. Einn virkur nefnir reyndar Katrínu Júlíusdóttur á nafn.
Katrín hefur fregnað af þessu, því hún svarar:
Ég á enga peninga erlendis, tja eða bara peninga yfirleitt umfram heimilisveltuna. Af hverju heldur þú því fram að verið sé að tala um mig? Bara til að segja eitthvað? Til að krydda kjaftaganginn? Sorglegt rugl.