Fyrsta árið sem ég skrifaði á netið, það var í kringum árið 2000, lék ég mér að því að birta svokallaðar netkannanir. Þá var ég á netmiðli sem kallaðist strik.is, sælla minninga. Þarna voru lesendur spurðir um ýmis álitamál og svöruðu með því að ýta á réttan hnapp. Fljótt sá ég að það var ekkert að marka þessar kannanir, þeir sem brunnu fyrir málefni voru líklegri til að svara en hinir, stundum var jafnvel safnað liði til að svara og svo var einfaldlega hægt að leika þann leik að taka cookies úr sambandi og svara oft og mörgum sinnum.
Þannig að þetta var ekki einu sinni skemmtilegt. Ekki heldur þótt maður fengi nokkra umferð inn á vefinn út á þetta. Eini fjölmiðillinn sem mér hefur sýnst að noti þetta að ráði núorðið er Útvarp Saga. Þar eru spurningarnar oft settar fram með ívafi útlendingahaturs – og yfirleitt þarf ekki að spyrja að leikslokum. Eitt sinn var spurningin reyndar svona: Treystir þú Bubba Morthens?
En nú sé ég að Hringbraut slær upp svona könnun. Þarna er meira að segja gengið svo langt að tala um „skoðanakönnun“. Það er orð sem maður hefði aldrei dirfst að nota um netkannanir, ekki einu sinni í árdaga internetsins. Spurningin er svona, og maður getur ýtt á hnappinn eftir vild.
Niðurstöður „skoðanakönnunarinnar“ (sem reyndar er ekki lokið) eru kynntar svona. Þetta er semsé staðan núna:
Nú er stuðningsmönnum Sigmundar í lófa lagið að fara á Hringbraut og reyna að breyta stöðunni. Það eru reyndar ekki margir sem bera blak af honum þessa dagana, flestir Sjálfstæðismenn þegja þunnu hljóði, en Þorsteinn Sæmundsson, Vigdís Hauks, Frosti og Karl Garðars gætu reynt að sitja við fram eftir degi.
Útvarp Saga gæti auðvitað sett upp sína eigin könnun – hugsanlega yrði niðurstaðan þveröfug.
En það væri reyndar mjög forvitnilegt að sjá alvöru skoðanakönnun um þetta mál. Maður hefur á tilfinningunni að staða Sigmundar hafi veikst fremur en hitt. Það er veikleikamerki að fara í uppstrílað viðtal í Fréttablaðinu og á jaðarstöðina Útvarp Sögu til að svara fyrir jafn stórt og erfitt mál og öll þessi Tortólauppákoma er. Svörin hafa heldur ekki verið sannfærandi.
En um könnun Hringbrautar er það að segja að þetta er eitt afbrigði af smelludólgahætti – og þykir ekki par fínt. Fjölmiðlar sem vilja láta taka mark á sér gera ekki svona.