fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Dvínandi áhugi á Nýja-Norðrinu

Egill Helgason
Fimmtudaginn 24. mars 2016 23:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitt viðkvæði síðustu ára hefur verið að framtíð Íslands lægi á Norðurslóðum. Að þangað ættum við að horfa – þar væri framtíðin. Og Norðurslóðir ættu að vera þungamiðja utanríkisstefnunnar.

En þessi framtíð hefur látið bíða eftir sér. Það var talað um Grænland sem gósenland framtíðarinnar, Grænlendingar yrðu jafnvel ríkasta þjóð heims vegna mikillar olíu- og námavinnslu. Menn sáu í hillingum að Íslendingar myndu græða á þessu með því að fjárfesta í Grænlandi, leggja til fjármagn, tæki og halda uppi samgöngum.

Nánast ekkert af þessu hefur ræst – Grænlendingar sitja uppi með sárt ennið og brostna drauma. Það er í raun mjög dapurt.

Draumar um olíugróða hafa víðar brugðist. Nú er verð á olíu svo lágt að ekki svarar kostnaði að bora eftir henni við erfiðar aðstæður í norðurhöfum. Það kann að verða langt í að slíkt borgi sig. Og kannski verður það aldrei – áhrif loftslagsbreytinga verða sífellt greinilegri, ef á að takast að hafa hemil á þeim er óhugsandi að dæla upp allri olíu sem hægt er að ná í.

Það er tímanna tákn að meira að segja Rockefeller-fjölskyldan er búin að selja öll bréf sín í olíufyrirtækjum – vegna umhverfismála. Auður Rockefelleranna byggðist upphaflega á olíu. Það liggur við að þeir hafi fundið upp olíugróðann.

Annað sem átti að verða veruleiki í nánustu framtíð voru stórauknar siglingar yfir Norður-Íshafið – og væntanlega stórskipahöfn á Norðaustur-Íslandi til að þjónusta þær. En í grein í The Independent Barents Observer segir að áhugi á íshafssiglingum hafi minnkað til muna. Alþjóðleg skipafyrirtæki virðast ekki hafa áhuga á þessari leið. Meginástæðan eru vond veðurskilyrði og sú að leiðin er einfaldlega ekki samkeppnisfær. Einnig spilar inn í sá ótti að stór sjóslys á þessum slóðum geti valdið miklum skaða á viðkvæmu heimskautaumhverfi, skipafélög eru líka viðkvæm fyrir slíku.

Það hefur semsagt staðið á norðurslóðaframtíðinni margumtöluðu – þótt ótal ráðstefnur hafi verið haldnar til að skrafa um hana.

Það sem gerðist hins vegar á Íslandi var að ferðamenn tóku að streyma hingað í áður óþekktum mæli. Ferðaþjónusta stefnir í að verða langstærsti atvinnuvegurinn. Hún er feikilega mannaflsfrek, svo mjög að hingað verður að flytja inn vinnuafl frá útlöndum – ferðaþjónustan breytir okkur líka að því leytinu að hlutfall innflytjenda á Íslandi hækkar ört.

Það er spurning hvaða áhrif allur þessi ferðamannastraumur mun hafa á sjálfsímynd þjóðarinnar. En eins og stendur er hann líklega áhrifamesti þátturinn í að móta hana – hingað dælist inn fólk með lágfargjaldaflugfélögum og setur svip á allt líf okkar. Við þurfum einhvern veginn að ráða fram úr þessu og á sama tíma virðist allt talið um  Norðurslóðir og Nýja-Norðrið sem þótti svo spennandi fyrir fáum árum heldur fjarlægt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?