Maður fagnar hlýnandi veðri. 17,6 stiga hita á Siglufirði í gær, 9 stigum í Reykjavík. Klakinn hverfur óðum og hinir miklu snjóskaflar sem hafa hlaðist upp í vetur. Þeir verða þá kannski ekki fram í júní eins og var á verstu vetrunum í kringum 1980.
Eða kannski er þetta ekkert fagnaðarefni, við Íslendingar gætum verið lentir í langvinnum kuldapolli, en samkvæmt NASA er þetta hlýjasti febrúarmánuðurinn sem nokkurn tíma hefur verið mældur. Og stökkið er víst stórt, 1,35 gráður yfir meðaltali, í fréttum RÚV er notað orðið loftslagsneyðarástand.
Tilfinningarnar eru semsé blendnar. Þegar maður vaknar á þessum mánudagsmorgni hugsar maður um heim þar sem fasistar og rasistar eru að ná völdum, sbr. Þýskaland og Bandaríkin, þar sem alþjóðasamstarf liðast í sundur og loftslagsbreytingar tröllríða mannkyninu.
En svo má líka skoða málin með smá bjartsýni eins og er gert í tillögum um uppbyggingu Skeifunnar frá Trípolíarkítektum. Frá þessum tillögum var sagt í Fréttatímanum og margt þar lítur ágætlega út.
Til dæmis þessi kirsuberjatré sem standa í blóma þarna, reisuleg og glæst, í uppbyggðri Skeifu – að því er segir árið 2060. Maður á víst ekki eftir að upplifa þetta, en þarna er allavega björt framtíð.