Ég er af kynslóðinni sem hlustaði á progg-rokk sér til óbóta. Já, okkur var seinna vorkennt fyrir það og við mættum jafnvel fyrirlitningu. Lengi gekkst maður varla við því að hafa hlustað á Yes, Emerson Lake & Palmer og Genesis. Pönkið var beinlínis stofnað til að kveða niður þá óværu sem var proggið – jú, og aðeins diskóið líka.
Enn finnst mér bæði progg og diskó skemmtilegra en pönk. Progg er stytting á progressive rock.
Keith Emerson var fyrsti proggarinn sem ég heyrði um, hann gat jafnvel gert tilkall til að vera upphafsmaður tónlistarstefnunnar. Emerson var farinn að leika einhvers konar progg í hljómsveitinni Nice fyrir 1970. Löng lög, með tilþrifum í hljóðfæraleik, flóknum hljómum og miklum taktbreytingum. Einhver staðar á ég þessa plötu í skáp.
Partur af þessu var að taka klassíska tónlist og útsetja hana fyrir hjóðfæri rokksins. Þetta þóttu örgustu helgispjöll. Þegar Trúbrot á Íslandi fetaði í fótspor Emersons og fleiri og lék verk eftir Wagner tóku yfirmenn á Ríkisútvarpinu sig til og eyðilögðu hljómplöturnar af slíkri vandvirkni að öruggt var að aldrei væri hægt að leika þær framar. Mér hefur alltaf fundist það afskaplega ljótt athæfi.
Kannski var þetta ekki alltaf smekklegt og kunnáttan var máski ekki mikil fyrst, en þarna var þó á ferðinni ákveðin forvitni og leit, tilraun til að víkka út svið rokk- og popptónlistar.
Það gerðu proggtónlistarmennirnir vissulega. Gullöld þeirra var frá sirka 1971 til 1977. Emerson Lake & Palmer var svo vinsæl hjómsveit að hún fyllti risastóra íþróttaleikvanga austan hafs og vestan. Aðdáendur deildu um hvor væri betri hljómborðsleikari Emerson eða Rick Wakeman úr Yes. Höfðu líklega fæstir hundsvit á, þeir voru báðir flinkir. Á mestu veltiárunum hjá Emerson Lake & Palmer voru hjómleikarnir þeirra svo stórir í sniðum að á þeim var bullandi tap, þetta var allt mjög yfirdrifið, og þremenningarnir voru skítblankir eftir.
Emerson var mikill showmaður, var undir hljómborðunum og ofan á þeim, stakk í þau hnífum og spilaði á hörpuna innan í píanóinu. Maður hélt eiginlega að hann hlyti að vera hálf brjálaður. Svona eins og Hendrix hljómborðsins. En svo les maður í minningagrein eftir félaga hans Carl Palmer að hann hafi haft blíða listamannslund.
Hér er sjónvarpsdagskrá frá því 27. nóvember 1970. Þarna má sjá að „breska bítlatríóið“ muni leika nokkur vinsæl lög klukkan 20.45. Svona þættir voru mjög fágætir í sjónvarpinu á þeim árum. Ég man að þetta kvöld píndu foreldrar mínir mig til að fara með sér í Þjóðleikhúsið fremur en að horfa á þáttinn, ég sé í blaðinu að sýningin hefur verið Piltur og stúlka. Ég hef aldrei gleymt því hvað ég var móðgaður þegar ég stóð með skrjáfandi sælgætispoka á gangi leikhússins og hugsaði heim til hins dýrlega tónlistarflutnings í sjónvarpinu.
Svo er það tóndæmið hér að neðan. Þetta er úr verki eftir hið stórkostlega bandaríska tónskáld Aaaron Copland, gyðing og sósíalista sem samdi tónlist sem verður vart amerískari. Líklega er þetta best heppnaða útgáfa Emersons á klassísku verki – það verður að segjast eins og er að Myndir á sýningu eftir Mussorgskí tókust ekki eins vel. Þetta er af metsöluplötunni Trilogy frá 1972, einu af höfuðverkum proggsins. Takið eftir vínflöskunni sem situr ofan á hljómborðinu. Hún er rokkstjörnuleg.
En Keith er dáinn, hann var fæddur 1944 og dó í dag.