Ef það er eitthvað sem hefur einkennt þennan vetur þá er það endalaus hálka. Það snjóar, hlánar aðeins, frystir aftur, út um allar grundir eru gömul skítug svell. Eftir síðustu snjókomu og blota eru þau mjög þykk – og í frostinu í dag virka þau hörð eins og demantar.
Maður skilur vel hvers vegna landið er stundum kallað Klakinn.
Við höfum tiplað yfir svellin síðan í nóvember. Það hafa verið örfáir dagar sem ekki er hálka síðan þá. Og líklega heldur þetta áfram svona fram í mars. Maður má þakka fyrir að sleppa óbrotinn í vetur.
Og það verð ég að viðurkenna að ekki skil ég túrista sem nenna að koma í þetta hérna um hávetur. Maður sér þá klöngrast hérna yfir svellbunkana. Ætli þeir viti af allri hálkunni áður en þeir koma?