Það sem er merkilegt við bandarísku forsetakosningarnar er hversu frambjóðendurnir eru lítt kjósanlegir. Þeir eru eiginlega hver öðrum veikari, bæði hjá Demókrötum og Repúblikönum.
Við vitum núorðið allt um Ted Cruz og Donald Trump. Þeir eru pópúlistar sem gera út á lægstu hvatir kjósenda. Trump er með eindæmum ófyrirleitinn og því miður elska fjölmiðlarnir að sýna hann – líka þeir sem eru mótfallnir honum – en um Cruz hefur verið sagt að enginn sem hafi kynnst honum kunni vel við hann.
Demókratamegin eru svo Hillary Clinton og Bernie Sanders. Sanders sækir að Clinton. Hann boðar eindregnari vinstri stefnu en sést yfirleitt í bandarískum stjórnmálum og hrífur marga með sér, sérstaklega ungt fólk. En líkurnar á að Sanders nái kjöri sem forseti eru litlar sem engar. Hægri pressan hamast á Clinton en lætur Sanders mestanpart í friði. En þegar þar að kemur getur hún hamrað á því að Sanders sé sósíalisti og 74 ára gamall – það mun nægja til að gera út af við framboð hans.
Hillary Clinton er líka mjög veikur kandídat. Hún kemur innan úr kerfinu, hefur verið forsetafrú og utanríkisráðherra, og þykir handgengin fjármagnsöflunum. Það er erfitt að verða innblásinn af Hillary og hún höfðar ekki sérstaklega til almennings. Og eins og áður segir gengur Fox News og hægri pressan mjög langt í að níða hana niður, það getur verið erfitt að verjast slíku. Kannski spilar líka inn í að hún er kona?
Eins og sakir standa gæti maður jafnvel farið að halda að sá sem er líklegastur til að ná kjöri sem næsti forseti sé repúblikaninn Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Florída. Hann styrkti stöðu sína í forkosningum í Iowa þar sem hann var rétt á eftir Cruz og Trump. Hann er þóknanlegri innabúðarmönnum í Repúblikanaflokknum en þeir. Rubio er þó í raun lengst til hægri – hann virkar einungis hófsamur við hliðina á náungum eins og Cruz og Trump. Hann er sagður vera langt til hægri við George W. Bush.
Uppi eru nokkrar vangaveltur um að Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóri, kunni að taka slaginn sem óháður frambjóðandi. Hann hefur sagt að hann muni kannski fara fram ef annað hvort Trump/Cruz eða Sanders vinna útnefningu flokka sinna. Bloomberg er íhaldssamur í fjárhagsefnum en frjálslyndur hvað varðar félagsleg mál. Hann er auðkýfingur og er sagður vera tilbúinn að eyða einum milljarði dollara í forsetakjör. Bloomberg var mjög farsæll borgarstjóri í New York en hefur ekki verið í stjórnmálum á landsvísu.
En óháður frambjóðandi hefur aldrei náð að sigra í forsetakosningum í Bandaríkjunum og margir telja að Bloomberg muni færa Repúblikönum kosningarnar á silfurfati ef hann býður sig fram.
Marco Rubio. Hann þykir nú langlíklegastur til að hljóta útnefningu Repúblikana sem forsetaefni. Og hann gæti sigrað Clinton eða Sanders.