Meðal gesta í Silfri Egils á sunnudaginn verða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, Gísli Marteinn Baldursson, varaborgarfulltrúi og sjónvarpsmaður, Siv Friðleifsdóttir alþingismaður, Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi og Mikael Torfason ritstjóri DV. Eitthvað fleira fólk á sjálfsagt eftir að bætast í þennan hóp.
Að auki kemur í þáttinn Kristinn R. Ólafsson, hinn nafntogaði fréttaritari Útvarpsins á Spáni. Kristinn mun ræða stórtíðindi í spænskum stjórnmálum sem orðið hafa eftir að Sósíalistar tóku við stjórnartaumunum. Þeir vilja nú leyfa hjónabönd samkynhneigðra og ættleiðingar þeirra, frjálsar fóstureyðingar og sitthvað fleira sem er mjög í óþökk íhaldsmanna og kaþólskrar kirkju. Er talað um sannkallaða þjóðfélagsbyltingu í þessu sambandi. Kristinn mun líka segja frá hinni nýju stjörnu á festingu jafnaðarmanna í Evrópu – Zapatero forsætisráðherra Spánar.
Ennfremur verður í þættinum beint sjónum að Karl Rove, kosningasmala frá Texas, sem sagður er vera heilinn á bak við Bush Bandaríkjaforseta. Enginn frýr Rove þessum vits, bak við tjöldin er hann einn valdamesti maður í heimi, en hins vegar þykir hann ekki ýkja vandur að meðulum sínum.
Fylgist með á Stöð 2 á sunnudaginn klukkan 12, í opinni dagskrá. Þátturinn er svo endursýndur síðla á sunnudagskvöldið, en einnig má skoða hann hér á vísi.is.