Í Danmörku á hún afgang eftir að hafa borgað leiguna og er ekki einu sinni byrjuð að vinna
„Það er auðmýkjandi að vera í húsnæðisvanda,“ sagði Guðrún Ásta Tryggvadóttir grunnskólakennari sem gafst upp á leigumarkaðnum fyrir þremur mánuðum og flutti ásamt manni og börnum til Danmerkur. Hún starfaði fyrir poppstjörnu og ferðaðist um heiminn en flutti heim árið 2012 því hana langaði að búa á Íslandi og eiga fjölskyldu.
Þetta kom fram í erindi sem Guðrún Ásta hélt á húsnæðisþingi í dag. Guðrún var ein fjögurra kvenna sem héldu erindi á húsnæðisþinginu og sögðu frá sinni upplifun.
Hildi var brugðið þegar hún fór að skoða íbúðir: „Það var sláandi að sjá þetta“
Eftir að Guðrún kom til Íslands fór hún á leigumarkaðinn. Hún kynntist fljótlega manni og varð ástfangin. Þau fundu leiguíbúð sem rúmaði þau tvö og börn mannsins en stuttu eftir að þau fluttu inn var þeim tilkynnt að eigendur hygðust selja hana.
Í erindi sínu sagði hún að fyrirhuguð sala hafi hangið yfir þeim í tvö ár. Þau hafi leitað víða að íbúð en illa gengið að finna. Þau eignuðust saman barn og fluttu í íbúð þar sem kyndingin var eldgömul og hafði aðeins tvær stillingar: Funheitt eða ískalt. Síðasta vetur kom upp mygla í íbúðinni sem þau bjuggu í og þá voru þau nýbúin að eignast sitt annað barn saman. Alls hafa þau flutt fjórum sinnum á síðustu fjórum árum.
Guðrún Ásta var kennari í skóla í vesturbæ Reykjavíkur og sagði hún í erindi sínu að leiguverð fyrir þriggja til fjögurra herbergja íbúð í þeim bæjarhluta samsvari því sem hún fái útborgað á mánuði.
„Fyrir okkur sem erum í angist með börnin okkar þá er þetta óþolandi ástand. Það er óþolandi að vera búin að mennta sig en eiga samt engan séns, ég sé enga von hér.“
Á endanum ákváðu Guðrún Ásta og maður hennar að flytja út landi. „Eins mikið og mig langar að búa á Íslandi og þykir sárt að þurfa að fara, þá erum við flutt til Danmerkur. Þar erum við í húsnæði með engri myglu og náum að borga leiguna en eigum samt fyrir öllum nauðsynjum og ég er ekki einu sinni byrjuð að vinna ennþá. Um leið og það gerist þá fæ ég húsaleigubætur,“ sagði Guðrún en í öðru erindi, sem Hildur Hjörvar lögfræðingur hélt, sagði hún að það svíði að vita til þess að fólk á Íslandi þurfi að greiða 2,5 sinnum fyrir íbúð á meðan jafnaldri í Danmörku greiðir 1,5 sinnum fyrir sína.
Guðrún Ásta sagði þó að eftir að hafa hlýtt á erindin á húsnæðisþinginu þá eygði hún von um að geta flutt aftur heim.