fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Nokkrar grillur

Egill Helgason
Fimmtudaginn 27. október 2005 00:08

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einhver þrálátasta og kannski með varasamari grillum samtímans er að sami rassinn sé undir öllum stjórnmálamönnum – þeir séu allir siðlausir og sjálfsdýrkandi eiginhagsmunaseggir. Í samræmi við þetta er talað um stjórnmálamenn af djúpri fyrirlitningu; það er sífellt verið að klifa á að völdin séu að færast frá þeim yfir í viðskiptalífið. Stjórnmálamenn eru hæddir og spottaðir, en það komast helst ekki nógu margir að til að sleikja rassinn á viðskiptajöfrunum.
Þetta endurspeglast í fjölmiðlunum. Ef stjórnmálamenn birtast í sjónvarpi á helst að hakka þá í spað. Ég las í bresku vefriti um daginn að í Bretlandi verði fólk sífellt dónalegra við stjórnmálamenn sem birtast á dyrapallinum fyrir kosningar eins og þar tíðkast. Margir rekja þetta beint til sjónvarpsmannsins Jeremys Paxman sem hefur gert það að íþrótt að vera ruddalegur við stjórnmálamenn.
— — —
Áleitin spurning er hins vegar hversu langt við viljum ganga í að lúta stjórn viðskiptalífsins. Hvað til dæmis þegar eitthvað bjátar á í samfélaginu? Við getum tekið fuglaflensu. Lyfjarisinn Roche á einkaleyfi á framleiðslu inflúensulyfsins Tamiflu. Þetta lyf mun ekki lækna fuglaflensu eða koma í veg fyrir hana, en getur slegið verulega á einkennin sé það tekið í tíma – þarna getur hugsanlega skilið milli lífs og dauða.
Roche hefur einkaleyfi á framleiðslu Tamiflu. Í lyfjabransanum skipta einkaleyfin öllu. Í sjálfu sér kostar litið að búa til svona lyf; það geta verksmiðjur á Indlandi alveg eins gert. En gróðinn kemur af einkaleyfunum og því vill Roche ekki heimila öðrum að framleiða lyfið. Nú kemur það í hlut pólitíkusa sem vilja bjarga mannslífum að reyna að fá auðringinn til að breyta um stefnu. Mótstaða peningamannanna er mikil – það hefur heldur ekki gengið alltof vel að fá þá til að stjórnast af einhverju öðru en gróðahugsun þegar alnæmisváin er annars vegar.
— — —
Talandi um sjónvarpsmenningu. Ég les klausu í Blaðinu þar sem er sagt að munurinn á Kastljósi og Íslandi í dag sé að spyrlarnir í síðarnefnda þættinum séu of linir. Það er skrifað að þær Svanhildur og Inga Lind séu bara sætar. Einmitt. Nú er ég ekki enn farinn að sjá nýja Kastljósið (þessir þættir eru alltaf á kvöldmatartíma siðaðs fólks) en hins vegar hefur mér verið sagt af viðtölum í þættinum þar sem spyrlarnir eiga að hafa farið yfir strikið.
Þannig varð Jónína Benediktsdóttir varð fyrir mjög yfirlætisfullu viðmóti, en Vilhjálmur Bjarnason, sem hefur gengið fram fyrir skjöldu sem talsmaður lítilla fjárfesta, fékk varla að tala fyrir ágengninni. Kannski er þetta gott og blessað; sumum finnst kannski að showið verði betra fyrir vikið?
— — —
En að sumu leyti snýst þetta um sjálfsdýrkun – hún er ekki eingöngu bundin við stjórnmálamenn heldur líka hina háheilögu stétt fjölmiðlamanna sem telur sig öðrum fremur starfa í umboði almennings. Þannig er látið eins og spyrillinn sé í raun merkilegri en viðmælandinn – og viðtalið ekki fullkomið nema hann geti hreykt sér eins og hani upp á hól og sagt: "Sjáið hvernig ég tók hann!"
Vandinn er bara sá að oft kemur meira út úr því að hlusta á hvað fólk er að segja og hvað það vill segja í staðinn fyrir að reka það eilíflega á gat.
— — —
Fjölmiðlamenn hafa oft á röngu að standa, alveg eins og stjórnmálamenn. Í Bandaríkjunum gengur mikið á vegna svokallaðs Plamegate-máls. Þar beinast sjónir manna meðal annars að blaðakonunni Judith Miller frá New York Times. Henni var til skamms tíma hampað sem málfrelsishetju, enda fór hún í fangelsi fyrir að neita að gefa upp heimildamenn sína inni í stjórnkerfinu.
Nú er hins vegar komið í ljós að þetta var allt meira og minna svindl hjá Miller. Menn eins og Karl Rove virðast hafa notað blaðakonuna til að koma á framfæri alls kyns upplýsingum sem þeim hentaði; þeim var síðan slegið upp í New York Times og urðu þarafleiðandi nánast viðtekin sannindi í bandarískum fjölmiðlaheimi. Slíkur hefur gæðastimpill New York Times verið. Þessar fréttir snerust um meint gereyðingarvopn í Írak og annað sem var notað til að réttlæta innrásina í landið. Orðstír New York Times hefur beðið mikinn hnekki; það er jafnvel búist við að blaðið þurfi að birta opinbera afsökunarbeiðni til lesenda.
Enn einu sinni skoða menn líkindin með Íraks og Vietnam. Við svipaðar kringumstæður, árið 1964, spiluðu virtustu fjölmiðlar Bandaríkjanna óðfúsir með Johnson forseta og stjórn hans. Í ágúst þetta ár var stóraukinn hernaður Bandaríkjanna í Vietnam var réttlættur með svokölluðu Tonkinflóa-atviki. Þetta var hið eiginlega upphaf Vietnam-stríðsins.
En atvikið var hrein lygi, norður-vietnamskir byssubátar höfðu ekki ráðist á bandarískt skip eins og Johnson hélt fram. Fjölmiðlarnir gleyptu þetta hins vegar hrátt – líka New York Times og Washington Post. Rétt eins og Írak var þetta ekki bara stjórnmálahneyksli, heldur líka fjölmiðlahneyksli.
Fyrst birt: 26. okt. 2005 23:58

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka