fbpx
Föstudagur 19.júlí 2024
Eyjan

Skelfileg náttúruspjöll, Glitnir og draumórar um háskóla

Egill Helgason
Sunnudaginn 12. mars 2006 21:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag birti ég í þætti mínum neðansjávarkvikmyndir sem sýna hin stórkostlegu spjöll sem togveiðar valda á hafsbotninum. Þetta er mál sem fer mjög lágt. Náttúrlega sér enginn skemmdirnar. Þetta hefur heldur ekki verið rannsakað svo neinu nemi. Á meðan halda botnvörpurnar áfram að plægja upp hafsbotninn ár eftir ár, alltaf stærri svæði – veiðarfærin verða stöðugt "fullkomnari". Helst ekkert kvikt kemst undan.

Hins vegar má varla hreyfa við steini á hálendinu án þess að rekið sé upp ramakvein. Viðmælendur mínir í þættinum, Þorsteinn Máni Árnason og Hermann Björn Haraldsson, gamall togaramaður, lýstu því hvernig hin stórvirku veiðarfæri eyðileggja kóralinn í hafinu í kringum landið. Þetta eru óafturkræf náttúruspjöll, því kórallinn vex mjög hægt aftur. Einnig er óhugnanlegt að sjá hvernig botnvörpurnar þyrla upp sandi af hafsbotninum sem sest í tálkn fisksins – vísast drepst hann fyrir vikið.

Þeir Þorsteinn Máni og Hermann nefna verkefni sitt Barnið í dag, þjóðin á morgun. Þannig vísa þeir í skammsýnina sem stjórnar þessum veiðum. Myndina tileinka þeir minningu Guðmundar Kjærnested, kapteins og hetju úr þorskastríðunum. Guðmundur mun hafa sagt við þá, dapur í bragði,að umgengni Íslendinga við meginauðlind sína væri slík að hann yrði að horfast í augu við að starf hans í landhelgisdeilum væri nánast unnið fyrir gýg.

—- — —

Glitnir – til hvers? Er það gott nafn? Af hverju ekki Íslandsbanki? Ekki að mér komi þetta mikið við, en maður er pínu hissa. Hafði reyndar heyrt að stórtíðinda væri að vænta úr bankanum – það var uppi orðrómur um að Baugsmaðurinn Gunnar Sigurðsson yrði gerður að bankastjóra.

En þá var bara skipt um nafn og merki. Gamla Íslandsbankalógóið var reyndar alltaf frekar ljótt, en nafnið er gott og sögulegt. Íslandsbankinn hinn seinni var vitaskuld ekki sama stofnun og Íslandsbankinn hinn fyrri – en á hátíðarstundum var látið eins og þarna væri ákveðið samhengi í sögunni.

Ég held reyndar að ég viti hvað þeir eru að fara. Íslandsbanki er ekki nógu hnattrænt, ekki nógu glóbalt. Þetta er hræðslan við að virðast heimóttarlegur – la peur d´être púkó eins og franskur vinur minn kallar það, óttin við að vera púkó.

— — —

Loks eitthvað af viti um Háskóla Íslands. Það er nefnilega mjög einkennilegt þegar menn eru að setja sér markmið sem allir vita að eru bull. Svona eins og fíkniefnalaust Ísland árið 2000. Nú er það markmiðið um að gera Háskóla Íslands að einum af hundrað bestu háskólum í heiminum. Eins og skipulagi skólans er háttað, fjármögnun, staðsetningu, kennaraliði, rannsóknum, akademískum kröfum, eru engar líkur á að þetta verði nokkurn tíma að veruleika.

Pawel Bartoszek, sá glöggi pistlahöfundur og stærðfræðingur, skrifar grein um þetta í Deigluna í dag. Í greininni reiknar Pawel saman nokkra mælikvarða sem eru lagðir á gæði háskóla. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands fái 1,8 samkvæmt þessari aðferð, meðan til dæmis York-háskólinn, sem er í 500 sæti á umræddum lista, er með 9,0 í meðaltal.

Pawel lýkur grein sinni á svofelldum orðum:

"Á hátíðisstundum setja menn oft fram fullyrðingar á borð við þær að "Háskóli Íslands sé alþjóðlegur háskóli sem standist fullkomlega samanburð við aðra skóla erlendis." Ofannefndar tölur sýna hins vegar að Háskóli Íslands stenst engan veginn samanburð við erlenda háskóla. Fræðimenn skólans þyrftu að birta 7 til 8 sinnum fleiri greinar ár hvert ef hann ætti að ná Sænska landbúnaðarháskólanum að gæðum. Og ef skimað er yfir nöfn fastráðinna kennara er ljóst að skólinn er langt því að vera einhver "alþjóðleg stofnun", því langflestir sem þar starfa eru Íslendingar.

Ég vona svo innilega að umræðan um bættan háskóla muni ekki bara snúast um frasa á borð við "fjársvelti skólans" eða "virðingarleysi ráðamanna gagnvart honum". Til að bæta sig þarf Háskólinn, fyrst og fremst, að reyna laða til sín framúrskarandi fræðimenn og afburðanemendur, meðal annars frá útlöndum. Það verður ekki gert öðruvísi en að taka launa- og styrkjakerfi skólans til gagngerrar endurskoðunar. En það er efni í annan pistil."

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á