fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Að hafa ekki taumhald á tungu sinni

Egill Helgason
Miðvikudaginn 5. apríl 2006 22:56

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er gaman þegar stjórnmálamenn eru ógætnir í orðum, talaaf sér, á tíma þegar pólitíkusar ástunda það að vera fjarskalega orðvarir, blaðra helst um ekki neitt, hafa ekki stórar skoðanir og móðga ekki neinn.

Silvio Berlusconi er sjálfsagt fjarska varasamur maður, en hann hefur óneitanlega visst skemmtanagildi – á ferli sínum hefur honum tekist að móðga Finna (óætur matur – vita ekki hvað prosciutto er), múslima (óæðri menning), þýska evrópuþingmenn (fangabúðaverðir) og síðast Kínverja með glannalegum yfirlýsingum. Berlusconi sagði nýskeð að kínverskir kommúnistar hefðu notað börn í áburð.

Sumir segja að Berlusconi sé trúður – en það er ábyggilega einföldun. Honum hefur altént tekist að verða ríkasti og valdamesti maður Ítalíu. Í kosningabaráttunni sem nú stendur yfir hefur hann heitið kynlífsbindindi, líkt sjálfum sér við Jesú Krist, en nú síðast sagði hann að þeir sem kysu vinstri flokkanna væru coglioni. Það er mjög dónalegt orð sem erfitt er að þýða á íslensku.

Ótal sögur og skrítlur ganga um þennan litríka mann, sem eitt sinn var söngvari á skemmtiferðaskipi. Til dæmis þessi:

"Tveir marsbúar koma til jarðarinnar sem er auð og tóm. Annar þeirra spyr: "Hvað gerðist hérna?" Hinn svarar: "Samningaviðræður við Talibanana gengu vel þangað til Berlusconi ákvað að segja brandarann um imaminn og nektardansmeyna."

— — —

En það geta fleiri misst sig en Berlusconi. David Cameron, hinn nýji leiðtogi breska Íhaldsflokksins, var í útvarpsviðtali um daginn og var þá spurður um Sjálfstæðisflokkinn breska (Independence Party – skammstafað UKIP). Þetta er flokkur sem samanstendur að miklu leyti af gömlum íhaldsmönnum, var stofnaður af auðkýfingnum Sir Jimmy Goldsmith – helsta stefnumálið er megn óbeit á Evópusambandinu.

Í viðtalinu kallaði Cameron liðsmenn flokksins "fruitcakes and loonies, closet racists mostly".

Þetta eru nokkuð sterk orð – ég hef ekki fyrir því að þýða þau. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hótað að fara í mál. En þá er þess líka að gæta að Sjálfstæðismenn hafa ekki vandað Cameron kveðjurnar. Þeir segja að hann sé linur í Evrópumálunum, hann sé í rauninni krati og slappari en Tony Blair í stríðinu gegn hryðjuverkum.

Í einum skemmtilegum pistli úr herbúðum Sjálfstæðismanna var Cameron líkt við nútímalegan og smartan prest – já, svona eins og ef Hjörtur Magni færi í pólitík. Það var ekki meint sem hrós.

— — —

En líklega er best að gæta orða sinna. Philip Meeson, eiganda lágfargjaldaflugfélags og einum ríkasta manni Bretlands, var nóg boðið vegna vinnudeilna í Frakklandi. Flugvélar frá honum lenda á flugvellinum í Chambery. Þar höfðu stúdentar skipulagt setuverkfall.

Í reiði sinni skrifaði Meeson grein á vefsíðu flugfélagsins þar sem stóð: "Jet2.com condemns French strike action and calls for lazy frogs to get back to work!"

Það voru einkum orðin lazy frogs sem fóru fyrir brjóstið á Frökkum. Þeir heimta náttúrlega afsökunarbeiðni.

Samt er ekki hægt að verjast þeirri tilhugsun að Meeson hafi nokkuð til síns máls – það hafa hinir kjaftforu stundum – þegar hann segir:

"What exactly are you striking about? Or just in case you don’t understand that, pouvez-vous nous expliquer pourquoi exactement êtes-vous en grève?" (Getið þið skýrt nákvæmlega út af hverju þið eruð í verkfalli?)

Svar eins talsmanns verkfallsmanna var líka nokkuð gott:

"Ef menn eru ekki sammála ríkisstjórninni, þykir það næg ástæða til verkfalla í Frakklandi."








Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi

Arnar Þór Jónsson: Lokum stofnunum og segjum upp þeim sem ekki sinna sínu starfi
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn

Stjórnarmyndun eftir kosningar: Framsókn mögulega í ríkisstjórn – afdrif Ásmundar gætu gefið tóninn
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka