Meira um gjaldmiðlismál. Þurfum við líka að velta þessum rökum fyrir okkur eins og VG-arinn Drífa Snædal gerir í grein á heimasíðu Ögmundar Jónassonar? Er krónan sjálfstæðismál líkt og sjálf tungan?
„Flestir ráðherrar Samfylkingarinnar nota tungutak markaðshyggjunnar en félagshyggjan er víðs fjarri. Þetta er mjög ljóst í umræðunni um hvort krónan sé gengin sér til húðar. Einungis efnahagsleg rök eru notuð til að reka áróður fyrir evrunni sem gjaldmiðli fyrir Ísland en það gleymist iðulega í umræðunni að það kostar að halda úti fullvalda þjóð í sjálfstæðu ríki. Á mælikvarða peninganna er engin skynsemi í því að halda úti íslenskunni. Það kostar ógrynni fjár að gefa út orðabækur, túlkaþjónusta er dýr, útgáfa skáldsagna væri miklu hagkvæmari á öðrum tungumálum, fjölmiðlarnir okkar gætu farið í útrás á ensku og svo mætti lengi telja. Það eru nefnilega önnur gild rök fyrir tilveru okkar en efnahagsleg. Þau rök verða líka að heyrast í umræðunni og það er ekki mörgum til að dreifa að halda þeim til haga.“