Það er lagt upp sem mikið sjálfstæðismál fyrir Englendinga að halda í þessar gömlu mælieiningar, mílu, pund, pint.
Þegar ég keypti kirsuber hjá ávaxtasala í miðborg Lundúna í sumar fór ég eitthvað að babbla um pund. Hann leiðrétti mig – spurði hvort ég vildi fá kíló.
Ég leigði bíl í Somerset. Þar reyndi ég að nota mælieininguna mílur. Konan í bílaleigunni svaraði og talaði um kílómetra.
Flestir þjónar á Englandi eru núorðið pólskir. Þeim er ekki eiginlegt að tala um pint.
Bjórinn sem er hellt í glösin er evrópskur. Englendingar drekka fæstir enskan bjór. Núorðið hafa þeir smekk fyrir ljósu lageröli af meginlandinu.
Iðnaðarmennirnir eru líka frá Austur-Evrópu. Þeir hafa lært að mæla í metrum og gera það sjálfsagt áfram.
Englendingar aka líka vinstra megin á veginum. Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað er sjarmerandi eða skemmtilegt við þann sið?
Nema manni þyki gaman að lenda í bílslysi.